Ekkert lát á hitabylgju í Suður-Noregi

Fólk nýtur útiverunnar á Aker-bryggju í miðbæ Óslóar, Akershus-kastalinn í …
Fólk nýtur útiverunnar á Aker-bryggju í miðbæ Óslóar, Akershus-kastalinn í baksýn. Einmuna veðurblíða hefur leikið við höfuðborgarbúa og aðra íbúa Suður-Noregs nánast allan maímánuð og hafa hitamet víða riðað til falls. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

„Miðað við meðalveður í maí erum við töluvert yfir þeim tölum,“ segir Bente Wahl, veðurfræðingur norsku veðurstofunnar, í samtali við dagblaðið VG um einn hlýjasta maímánuð í Ósló frá upphafi mælinga en hitastigið fór hæst í 31,1 gráðu í hverfinu Lilleaker þar í borg 16. maí, daginn fyrir þjóðhátíðardag Norðmanna.

Wahl segir háþrýstisvæði yfir nánast öllu landinu, að Norður-Noregi undanskildum, og nú sé um að gera að draga fram sólvarnarkremið. „Það kólnar að minnsta kosti ekki [næstu vikuna], mér sýnist að við fáum rúmlega 25 gráða hita víðast hvar í Suður-Noregi en um hvort fari í 30 gráður aftur þori ég engu að spá,“ segir Wahl glaðbeitt við VG.

Spurð um stöðuna við vesturströndina, þar sem meðal annars borgirnar Bergen og Stavanger eru staðsettar, segir Wahl Vestlendinga einnig eiga gott í vændum, hitastigið í Bergen sé nú um 20 gráður en þar megi búast við allt að 25 gráðum næstu daga. Vafalítið góð tíðindi fyrir hið annálaða rigningarbæli sem Bergen er.

Wahl nefnir sérstaklega sveitarfélagið Folldal í Hedmark-fylki norður af Ósló þar sem mældist 41,8 gráðu frost í janúar. Nú megi íbúar þar búast við 21 gráðu í plús næstu daga sem er yfir 60 gráða hitasveifla síðan kuldaboli beit hvað fastast í vetur.

Umfjallanir annarra fréttamiðla um norsk hitamet síðustu daga:

Frá ABC Nyheter

Frá Aftenposten

Frá Bergens Tidende

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert