Síðustu fimm bjargað í dag

Aðgerðir eru hafnar við að bjarga síðustu drengjunum og þjálfara þeirra út úr taílenska hellinum. Alls eru fjórir drengir auk þjálfarans inni í hellinum en þar er jafnframt læknir og þrír hermenn í sérsveit taílenska sjóhersins sem hafa dvalið með hópnum frá því hann fannst.

Yfirmaður björgunaraðgerðanna, Narongsak Osottanakorn, ræddi við fréttamenn í dag og segir hann ástand drengjanna átta sem hefur þegar verið bjargað vera gott miðað við aðstæður. 

Fjórum drengjum var bjargað úr hellinum á sunnudag og fjórum til viðbótar í gær. Drengirnir sem eru komnir út eru á aldrinum 12-16 ára. Tugir sérþjálfaðra kafara taka þátt í björgunaraðgerðunum. Aðgerðirnar tóku níu klukkustundir í gær og segist Narongsak vonast til þess að aðgerðirnar taki skemmri tíma í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum er andleg og líkamleg líðan drengjanna átta góð en þeim verður haldið á sjúkrahúsinu í um það bil viku.  

Níutíu reyndir hellakafarar taka þátt í björguninni, þeirra á meðal 40 taílenskir, undir stjórn sérsveitar taílenska sjóhersins. Tveir kafarar fylgja hverjum piltanna. Þeir ganga, vaða, klifra eða kafa rúma fjóra kílómetra í hellinum og halda í reipi sem sett hafa verið þar til að vísa þeim leið í myrkrinu. Á erfiðasta hluta leiðarinnar eru göngin svo þröng að kafararnir þurfa að taka af sér súrefniskútana til að komast í gegnum þau.

Mjög erfiðar aðstæður

Piltarnir eru í fótboltaliði, sem kallað er Villisvínin, og fóru inn í hellinn ásamt þjálfara sínum eftir æfingu 23. júní. Ekki var vitað um afdrif piltanna í níu daga, eða þar til breskir kafarar fundu þá á syllu í niðamyrkri yfir vatni sem flæddi inn í hellinn í úrhellinu. Ekki var hægt að hefja björgunina strax vegna mjög erfiðra aðstæðna. Yfirvöld íhuguðu meðal annars að bora göng í hellinn til að bjarga piltunum eða bíða með björgunina þar til monsún-regntímabilinu lýkur eftir nokkra mánuði. Ákveðið var hins vegar að hefja björgunina á sunnudaginn var vegna hættu á að piltarnir yrðu uppiskroppa með súrefni eða að sylla þeirra í hellinum færi á kaf í vatn vegna rigningar sem hófst um helgina og spáð var að héldi áfram næstu daga.

Valin var sú leið að fá tugi reyndra kafara til að bjarga piltunum þótt henni fylgdi mikil áhætta vegna aðstæðna í hellinum. Enginn piltanna hafði reynslu af köfun og óttast var að þeir myndu missa stjórn á sér af hræðslu þegar þeir þyrftu að synda í þröngum hellinum í svartamyrkri. Köfunin reyndi jafnvel á þaulreynda kafara á meðal björgunarmannanna og einn þeirra dó í hellinum þegar hann varð súrefnislaus. Dauði hans var til vitnis um hættuna sem fylgdi köfuninni í hellinum, jafnvel fyrir reynda kafara.

Piltarnir eru á aldrinum ellefu til sautján ára. Þjálfari þeirra er sagður vera verst á sig kominn vegna þess að hann hafi ekki viljað borða og gefið piltunum matarskammta sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert