Lög um „þjóðríki gyðinga“ samþykkt

Benjamín Netanjahú í þingsal í gær.
Benjamín Netanjahú í þingsal í gær. AFP

Ísraelska þingið samþykkti í dag umdeildar lagabreytingar þar sem Ísraelsríki er skilgreint sem ríki einkum fyrir gyðinga. „Þjóðríkislögin“ svokölluðu segja að gyðingar hafi einstakan rétt til sjálfsákvörðunar. Þá er hebreska nú eina opinbera tungumál ríkisins en fyrir var arabíska það einnig.

Um fimmtungur íbúa Ísraelsríkis er Arabar og hefur frumvarpið vakið reiði margra þeirra. Þá lagðist frumvarpið illa í þingmenn af arabískum uppruna og voru nokkrir þeirra reknir úr þingsal í dag fyrir að tæta frumvarpið í sundur.

Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. sagði lagasetninguna tímamótastund. „120 árum eftir að [Theodore] Herzl [faðir nútíma síonisma] greindi frá sýn sinni mótum við grundvöll tilvistar okkar,“ sagði forsætisráðherrann.

„Ísrael er ríki gyðinga og viðurkennir rétt allra borgara sinna,“ bætti hann við.

Í einni grein laganna er vikið að mikilvægi þess að „þróa landnemabyggðir gyðinga sem gildi þjóðarinnar“ en óljóst er hvað það á að þýða. Þá er ekki vitað hvort landnemabyggðir gyðinga við Vesturbakka árinnar Jórdan, sem eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum, falla þar undir.

Í fréttaskýringu BBC segir að lögin séu fyrst og fremst táknræn. Með þeim sé staða arabíska minnihlutans veikt, en hópurinn glími þegar við mismunun á sviði menntunar, heilbrigðisþjónustu og á húsnæðismarkaði.

Mannréttindahópar hafa fordæmt lögin og arabískur þingmaður hefur líkt þeim við aðskilnaðarstefnuna sem var við lýði í Suður-Afríku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert