12 ára dómur fyrir skotárás

Luca Traini hefur verið dæmdur í 12 ára fangelsi.
Luca Traini hefur verið dæmdur í 12 ára fangelsi. AFP

Hægri öfgamaður sem skaut á sex afríska innflytjendur í byrjun febrúar í ítalska bænum Macerata hefur verið dæmdur í tólf ára fangelsi.

Luca Traini hóf árásina, sem stóð yfir í tvær klukkustundir, eftir að ung ítölsk kona, Pamela Mastopietro, var myrt af nígerískum dópsölum, að því er talið er. Lík hennar fannst eftir að það hafði verið bútað í sundur og sett í ferðatöskur, nokkrum dögum fyrir árás Traini. 

Haldnar voru mótmælagöngur víða um Ítalíu til stuðnings flóttamönnum þar sem árásin var fordæmd. Traini fékk sömuleiðis skilaboð þar sem lýst var yfir ánægju með árásina.

Traini, sem var ákærður fyrir morðtilraun og kynþáttahatur, ætlar að áfrýja dóminum.  „Ég vil biðjast afsökunar á því sem ég gerði,“ sagði hann. „Í fangelsi hef ég áttað mig á því að það er enginn munur á milli svartra og hvítra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert