Skýstrókar og haglél á stærð við tennisbolta

Fiona Simpson er ein þeirra sem slösuðust. Hún birti myndir …
Fiona Simpson er ein þeirra sem slösuðust. Hún birti myndir á samfélagsmiðlum af marblettum og skurðum sem hún fékk eftir haglélið. Ljósmynd/Fiona Simpson

Fjórir slösuðust er skýstrókar og þrumuverður með hagléli á stærð við tennisbolta fóru yfir Queensland-fylki í Ástralíu og ollu þar verulegum skaða.

Veðrakerfið, svonefnt „supercell“, fór að sögn áströlsku veðurstofunnar yfir fylkið í gær.

Einn skýstrókur fór yfir bæinn Tansey, sem er um 250 km norður af Brisbane, og reif upp tré og húsþök.

Á öðrum stað slösuðust fjórir þegar haglél á stærð við tennisbolta braut bílrúður, að því er BBC hefur eftir áströlskum yfirvöldum.

Fiona Simpson er ein þeirra sem slösuðust. Hún birti myndir á samfélagsmiðlum af marblettum og skrámum sem hún fékk víða um líkamann eftir haglélið.

„Ég varði barnið mitt með líkama mínum til að koma í veg fyrir að hún slasaðist illa [...] keyrið aldrei í haglélsstormi,“ skrifaði hún. Atburðurinn átti sér stað í bænum Kingaroy.

Supercells-veðrafyrirbrigðið myndar öflugustu skýstróka sem verða í Ástralíu og fylgir þeim oft öflugt haglél.

Vindhraðinn í veðrinu á fimmtudag er sagður hafa náð 98 km hraða og olli, ásamt haglélinu, verulegum skaða á byggingum og uppskeru. Þá hafa notendur samfélagsmiðla einnig greint frá því að dýr hafi slasast í veðrinu.

BBC hefur eftir Steven Harland, einum sjónarvottanna, að veðrið hafi verið „einkar öflugt“. Hann hafi séð skyndiflóð, fjölda fallinna trjáa og skemmdir sem haglélið hafi valdið á bílum.

„Þetta er bara áminning um hvað móðir náttúra getur gert á svona skömmum tíma,“ sagði Harland.

Áströlsk yfirvöld segja um 300 hjálparbeiðnir hafa borist vegna veðursins og voru í dag enn 10.000 hús án rafmagns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert