Kristersson mistókst að mynda stjórn

Ulf Kristersson tókst ekki að mynda ríkisstjórn í dag og …
Ulf Kristersson tókst ekki að mynda ríkisstjórn í dag og líklega fær hann ekki fleiri tækifæri til þess. AFP

Ulf Kristersson, formanni Moderatarna tókst ekki að mynda ríkisstjórn í Svíþjóð í dag og mun hann mögulega skila umboði sínu til ríkisstjórnarmyndunar á morgun. Sænska ríkisútvarpið greindi frá þessu í dag.

Stjórnmálaskýrandi sænska ríkisútvarpsins segir að Miðflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn hafi hafnað hugmyndinni um minnihlutastjórn Moderatarna, sem studd yrði hinum flokkunum í hægriblokkinni, þar sem slík ríkisstjórn yrði of háð stuðningi Svíþjóðardemókrata.

Leiðtogar beggja flokka vilja þó að Kristersson haldi áfram umboðinu til þess að reyna að mynda ríkisstjórn, en vilja skoða að sterkari stjórn verði mynduð yfir miðjuna, undir stjórn Kristersson.

Viðræður hafa verið í gangi á milli flokkanna fjögurra sem mynda Alliansen, hægriblokkina í sænskum stjórnmálum, um að mynda ríkisstjórn. Kristilegir demókratar studdu hugmyndir Kristersson, en sem áður segir lögðust Miðflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn gegn þeim.

Ulf Kristersson heldur blaðamannafund á morgun, eftir fund hans með forseta þingsins, þar sem ákveðið verður hvort Kristersson muni halda stjórnarmyndunarumboðinu eða ekki.

Stjórnmálaskýrandi sænska ríkisútvarpsins telur að Kristersson muni ekki fá aðra tilraun, heldur sé nú komið að Stefan Löfven, forsætisráðherra og formanni Sósíaldemókrata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka