Húsnæði CNN rýmt vegna pakka

Höfuðstöðvar CNN í New York.
Höfuðstöðvar CNN í New York. AFP

Húsnæði bandarísku fréttastofunnar CNN í New York var rýmt í dag eftir að grunsamlegur pakki barst þangað, svipaður þeim sem voru stílaðir á Barack Obama og Hillary Clinton og talið er að hafi innihaldið bréfsprengjur.

Lögreglan í New York staðfesti að hún hefði verið kölluð að Time Warner Center þar sem skrifstofa CNN í borginni er til húsa, til að rannsaka fregnir af grunsamlegum pakka.

Fréttamenn CNN greindu frá því í útsendingu fyrir utan bygginguna að þeir hefðu heyrt í brunavarkerfinu og að rafmagnið hafi farið af, áður en þeir gengu niður stigann.

Lögreglan gat ekkert staðfest um innihald pakkans.

Sarah Sanders, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins.
Sarah Sanders, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins. AFP

CNN hefur verið aðgangshart í umfjöllun sinni um ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta síðustu tvö ár og um forsetann sjálfan. Hann tók við embættinu af Obama eftir harða kosningabaráttu við demókratann Hillary Clinton.

Hvíta húsið hefur fordæmt þann eða þá sem sendu pakkana til Obama og Clinton.  „Þessar hryðjuverkaaðgerðir eru fyrirlitlegar og þeir sem standa á bak við þetta verða dregnir fyrir dóm,“ sagði Sarah Sanders, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert