Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis í Bandaríkjunum, tilkynnti á blaðamannafundi síðdegis að grunsamlegur pakki hefði verið sendur á skrifstofu hans í dag. Ekki liggur fyrir um hvort sprengju er að ræða, en ef svo er bætist hann þá í hóp þeirra Obama-hjóna, Clinton-hjóna og fjölmiðilsins CNN, en bréfsprengjur hafa verið sendar til þessara aðila í dag. Á mánudag barst einnig bréfsprengja heim til George Soros.
„Tækið sem var sent á skrifstofu mína uppgötvaðist og það er verið að meðhöndla það núna,“ sagði Cuomo á blaðamannafundi fyrir skömmu. Cuomo er Demókrati og harður gagnrýnandi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Hann sækist nú eftir endurkjöri í embætti ríkisstjóra í New York.
New York Times hefur það eftir að lögreglu að bréfin þrjú sem send voru hjá Cinton-hjónum, Obama og skrifstofu CNN séu svipuð því sem Soros fékk í pósti á mánudag, en þau innihéldu öll rörasprengjur.
Lögregla vestanhafs rannsakar nú hvort hvort tilræðismaður sé að gera atlögu að fólki og stofnunum sem hafa verið viðfang gagnrýni frá hægri væng stjórnmálanna.
New York Times greinir einnig frá því að bréfin sem bárust á skrifstofur CNN og heim til Soros hafi verið látin líta út fyrir að koma frá þingkonu demókrata í Flórída, Debbie Wasserman Schult, en nafn hennar og heimilisfang var skrifað aftan á bæði umslög.
Sem áður segir er það ekki ljóst hvort um bréfsprengju hafi verið að ræða á skrifstofu Cuomo, en hann taldi sagði á blaðamannafundinum að það myndi ekki koma honum á óvart ef svipaðir pakkar bærust fleiri aðilum.
Nokkur spenna er í Bandaríkjunum vegna þessara bréfsprengjutilræða, sem þó hafa blessunarlega ekki valdið neinum skaða, enda hafa pakkarnir fundist við öryggisleit á öllum stöðum.
Í dag voru skrifstofur bandaríska þingmannsins Kamala Harris í San Díegó rýmdar, eftir að grunsamlegir pakkar fundust nærri skrifstofunni. Lögreglan í San Díegó sagði síðar að engin hætta hefði verið á ferðum.