Fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Joe Bieden, og leikarinn Robert De Niro eru þeir síðustu sem greint hefur verið frá að hafi fengið grunsamlega pakka senda. Talið er að pakkarnir innihaldi sprengiefni.
Bieden var níunda skotmark óprúttinna aðila sem hafa sent háttsettum demókrötum og öðrum andstæðingum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta grunsamlega pakka. Sjálfur hefur forsetinn gagnrýnt fjölmiðla og segir þá vekja reiði hjá fólki.
Pólitískir andstæðingar forsetans saka hann um að hafa ýtt undir ofbeldi eftir að grunsamlegar sendingar, sem margar hverjar innihalda sprengiefni, voru sendar til Barack Obama, Hillary Clinton, CNN og annarra sem stuðningsmenn Trumps fyrirlíta.
Forsetinn kallaði fyrst eftir samstöðu en skipti um gír snemma í morgun og réðst að fjölmiðlum.
„Stór hluti af reiðinni sem við sjáum í samfélaginu í dag er vegna viljandi rangra frétta fjölmiðla sem ég kýs að kalla falsfréttir,“ skrifaði Trump á Twitter í morgun. „Þetta er orðið svo slæmt og hatursfullt að það er varla hægt að lýsa því. Fjölmiðlar þurfa að taka sig saman í andlitinu FLJÓTT!“
Milljarðamæringurinn George Soros fékk fyrstu sendinguna á mánudag. Lögreglan í New York eyddi bréfi sem var stílað á hann vegna gruns um að sprengja væri í því.
Lögreglan í New York rannsakar nú pakka sem sendur var á veitingastað leikarans Roberts De Niros. Hann hefur gagnrýnt forsetann harðlega og meðal annars kallað hann „þjóðarhörmung“.
Auk þess bárust fregnir af því að fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefði fengið grunsamlega sendingu í dag. Hann hefur verið orðaður við forsetaframboð vestanhafs árið 2020.
Bréfin voru ljósbrún og heimilisföngin skrifuð í tölvu utan á þau. Allir pakkarnir áttu það sameiginlegt að á þeim stóð að þeir skyldu endursendast til Debbie Wasserman Schultz, sem er þingkona demókrata í Flórídaríki, en í stað Schultz stendur Shultz á bréfunum.
Húsnæði bandarísku fréttastofunnar CNN í New York var rýmt í gær eftir að grunsamlegur pakki barst þangað sem talið er að hafi innihaldið bréfsprengjur. Sprengjan var stíluð á John Brennan, fyrrverandi yfirmann leyniþjónustunnar CIA, sem hefur verið tíður gestur á CNN.
Trump fordæmdi bréfsprengjurnar í gær og sagði að pólitískt ofbeldi yrði ekki liðið í Bandaríkjunum. „Fjölmiðlar eru einnig ábyrgir og þeir verða að hætta með þessa endalausu neikvæðni og oft á tíðum falsfréttir og árásir,“ sagði Trump á fjöldafundi í Wisconsin.
Myllumerkið #MAGABomber varð vinsælt á Twitter en þar mátti finna ásakanir um að Trump hefði ýtt undir tilraunir til árása. Notendur sem skrifuðu undir myllumerkinu bentu á ýmis miður falleg ummæli sem hann hefði látið út úr sér í gegnum tíðina gegn þeim sem hefðu fengið pakka.
Alríkisrannsókn er hafin á sendingunum en enginn hefur verið handtekinn vegna málsins. Biðlað hefur verið til almennings að koma fram ef fólk hefur einhverjar upplýsingar um málið.
Margir hafa kennt málflutningi forsetans um og segja að hann hafi skapað andrúmsloft þar sem hvítir þjóðernishyggjumenn hafi stigið fram og hatur í garð pólitískra andstæðinga hafi aukist til muna.
Nancy Pelosi og Chuck Schummer, þingmenn demókrata, hafa sakað Trump um að samþykkja ofbeldi og að hann sé að sundra Bandaríkjunum.
„Gjáin er djúp og við verðum að gera allt sem hægt er til að sameina landið,“ sagði Hillary Clinton. „Hvíta húsið skilur ekki alvarleika stöðugra árása á fjölmiðla,“ sagði Jeff Zucker, forstjóri CNN.