Grunsamlegur pakki hefur verið sendur á veitingastaðinn Tribeca Grill í New York, en hann er í eigu leikarans Roberts De Niros. Mun pakkanum svipa til sendinga sem borist hafa fréttamiðlinum CNN sem og nokkrum háttsettum demókrötum. BBC greinir frá.
Pakkinn barst á veitingastaðinn snemma í morgun og ef sá grunur lögreglu reynist réttur að hann innihaldi sprengiefni er pakkinn sá áttundi sem berst opinberu andstöðufólki Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Sjálfur er De Niro harður andstæðingur Trumps og hefur meðal annars kallað hann „þjóðarhörmung“.
Veitingastaðurinn var mannlaus þegar sendingin barst.