Rannsaka Flórída-tengsl bréfasprengjanna

Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fyrrverandi varaforsetinn Joe Biden, Hillary Clinton …
Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fyrrverandi varaforsetinn Joe Biden, Hillary Clinton fyrrverandi utanríkisráðherra, fyrrverandi dómsmálaráðherra Eric Holder, John Brennan fyrrverandi forstjóri CIA, þingmaðurinn Maxine Waters, Debbie Wasserman Schultz stjórnarformaður Demókrataflokksins, George Soros stjórnarformaður Soros sjóðsins og leikarinn Robert de Niro hafa öll fengið senda grunsamlega pakka undanfarna daga. AFP

Bandaríska alríkislögreglan hefur gert húsleit á póstflokkunarstöð í nágrenni Miami  í tengslum við rannsókn lögreglu á bréfasprengjum sem sendar hafa verið á þekkta einstaklinga. Vinnur lögregla nú að því hörðum höndum að komast að því hver sendandinn er.

Greint var frá því í gær að gun­sam­leg­ur pakki hef­ði verið send­ur á veit­ingastaðinn Tri­beca Grill í New York, sem er í eigu leik­ar­ans Roberts De Niros. Þá voru tvær grunsamlegar sendingar sem stílaðar voru á Joe Biden, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, einnig stöðvaðar í gær.

Áður hefur verið greint frá því að sambærilegar sendingar hafi verið sendar á þau Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Bandarískir fjölmiðlar hafa eftir heimildamönnum innan lögreglu að rannsakendur telji að minnsta kosti eina sendinguna hafa borist frá Flórída.

Húsleit var gerð í Opa-locka-póstflokkunarmiðstöðinni á Flórída og er m.a. verið að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum. Tóku sprengju- og hundasveitir m.a. þátt í leitinni að því er BBC hefur eftir lögregluyfirvöldum í Miami-Dade sýslu.

Time Warner-byggingin í New York var rýmd um tíma í gær eftir að fregnir bárust af grunsamlegri sendingu. Sá ótti reyndist síðar ástæðulaus, en CNN-sjónvarpsstöðin, sem hafði fengið grunsamlega sendingu daginn áður, er þar til húsa.

Áður hafði aðstoðarforstjóri FBI, William Sweeney, greint frá því að hvítt duft sem var í pakkanum sem sendur var CNN hefði ekki reynst „lífræn ógn“ og verið væri að rannsaka innihald allra þeirra pakka sem borist hefðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert