Segir Tillerson heimskan og latan

Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta vera „agalausan“ og hafa ítrekað vilja brjóta gegn lögum. Trump rak Tillerson í mars á þessu ári. Tillerson var í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CBS þar sem hann sagði samband sitt við Trump ekki hafa verið gott.

Tillerson sagði skýringuna hugsanlega þá að þeir væru mjög ólíkir og aðhylltust ólík gildi. Hann hafi þurft að benda Trump á að þó hann skildi hvað hann vildi gera væri það ekki hægt með þeim hætti vegna þess að það færi gegn ákveðnum lögum eða samningum. „Ég held að hann hafi orðið þreyttur á mér sem gaurnum sem var alltaf að segja honum að hann gæti ekki gert eitthvað og að það þyrfti að ræða hvað væri hægt.“

Trump brást við viðtalinu á Twitter og sagði Tillerson hafi ekki haft þá vitsmuni sem nauðsynlegir væru til að gegna stöðu utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Trump sagði Tillerson nautheimskan og að gott hafi verið að losna við hann. Þá hafi ráðherrann fyrrverandi verið óhemju latur. Lífið hefði verið allt annað eftir að hann hætti.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert