Pompeo hefur áhyggjur af kókalaufum

Ivan Duque forseti Kólumbíu og Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddu …
Ivan Duque forseti Kólumbíu og Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræddu kókaínframleiðslu og ýmislegt fleira á fundi sínum í gær. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur verulegar áhyggjur af aukinni framleiðslu kókalaufa í Kólumbíu, sem notuð eru til framleiðslu á kókaíni.

Frá þessu greindi hann í gær þegar hann ræddi við Ivan Duque, forseta Kólumbíu, en Pompeo kom þar við eftir að hafa verið viðstaddur þegar Jair Bolsonaro sór embættiseið sem forseti Brasilíu á nýársdag. Á fundinum sammæltust Pompeo og Duque um að grípa til sameiginlegra aðgerða til að minnka framleiðslu á kókalaufum um 50% fyrir árið 2023.

Nýleg skýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir að aldrei hefur stærra landsvæði í Kólumbíu verið nýtt fyrir ræktun kókalaufa, en áætlað er að 171 þúsund hekt­ar­ar lands séu nýtt­ir und­ir kóka­akra.

Blóðugt kókaínstríð hefur staðið yfir í landinu svo áratugum skiptir. Hvergi í heiminum er framleitt jafn mikið kókaín og hvergi í heiminum eru neytt jafn mikils kókaíns og í Bandaríkjunum. Pompeo hefur áhyggjur af ástandinu og áhrifin sem það hefur á bæði ríkin. „Við vitum að við þurfum að bregðast við til að minnka eftirspurn í okkar ríki og við munum vinna hörðum höndum að því.“

Duque, sem tók við embætti forseta Kólumbíu af Juan Manuel Santos í ágúst, þakkaði Pompeo fyrir stuðning Bandaríkjanna í baráttunni gegn fíkniefnum en árlega leggja Bandaríkin til um 400 milljónir dollara og er fjármagnið nýtt til að berjast gegn framleiðendum og smyglurum. Ljóst er þó að meira þarf til en aukið fjármagn til að binda enda á kókaínstríðið. Duque kynnti nýja fjögurra ára áætlun í haust þar sem hann heitir því að „raunverulegur árangur“ muni nást í baráttunni gegn fíkniefnum á næstu fjórum árum.

Hvergi í heiminum er framleitt jafn mikið kókaín og í …
Hvergi í heiminum er framleitt jafn mikið kókaín og í Kólumbíu og hvergi í heiminum eru neytt jafn mikils kókaíns og í Bandaríkjunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert