Sendiráðum bannað að flagga regnbogafánanum

Ekkert verður af því að sendiráð Bandaríkjanna í Berlín fái …
Ekkert verður af því að sendiráð Bandaríkjanna í Berlín fái að flagga regnbogafánanum í ár. AFP

Nokkrum sendiráðum Bandaríkjanna hefur verið hafnað um leyfi til að flagga regnbogafánanum nú í júní, sem er alþjóðlegur mánuður hinsegin fólks. Hingað til hefur slíkt leyfi verið auðfengið.

Í frétt CNN um málið kemur fram að sendiráð þurfi formlegt leyfi frá utanríkisráðuneyti landsins þegar flagga á öðrum fána en þeim bandaríska. Heimildarmenn miðilsins segja slíkt leyfi hingað til hafa verið auðfengið, en í ár hafi svar komið frá ráðuneytinu sem hafnaði beiðninni.

Eitt af sendiráðunum er sendiráð Bandaríkjanna í Berlín í Þýskalandi. Sendiherra landsins þar er Richard Grenell, en hann er samkynhneigður og mikill stuðningsmaður réttinda hinsegin fólks.

Í stað þess að flagga fánanum á fánastöng sendiráðsins hefur sendiráðið hins vegar sagt að í ár verði regnbogafáninn hengdur á hlið sendiráðsins.Þá mun sendiráðið einnig standa fyrir fjölda viðburða í lok mánaðarins vegna sérstakrar hinsegin viku í Berlín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert