Kosningar í skugga Samherjamáls

Hage Geingob forseti Namibíu.
Hage Geingob forseti Namibíu. AFP

Íbúar í Namibíu munu kjósa sér forseta og þing á miðvikudaginn í skugga spillingarmála og afsagna í kjölfar Samherjamálsins. Hage Geingob, forseti landsins, býður sig aftur fram en hann er leiðtogi SWAPO-flokksins sem hefur verið við völd í landinu síðan það fékk sjálfstæði frá Suður-Afríku árið 1990.

Alþjóðabankinn hafði spáð auknum hagvexti í landinu í ár, en það hefur ekki gengið eftir og eru efnahagsmál í brennidepli í kosningunum, en efnahagslægð hefur sett mark sitt á embættistíð Geingobs sem er 78 ára. Vinsældir hans hafa dalað umtalsvert, ekki síst meðal ungra Namibíubúa. „Vegna efnahagsástandsins fær fólk enga vinnu,“ sagði Ndeshihafea Nghipandulwa, sem er 18 ára, í samtali við AFP-fréttastofuna. „Ef breytingar eiga að verða, þá þurfum við nýjan forseta.“

Frá kosningabaráttunni í Namibíu.
Frá kosningabaráttunni í Namibíu. AFP

Telur Samherjaskjölin hafa verið birt sér til höfuðs

Geingob hefur m.a. verið sakaður um að hygla vinum sínum með því að ráða þá í háttsett opinber embætti eða gera þá að ráðherrum. Hann fullyrðir að birting WikiLeaks skjalanna, þar sem hulunni var flett af viðskiptaháttum Samherja í Namibíu og tengslum fyrirtækisins við ráðamenn þar, hafi verið tímasett rétt fyrir kosningar til að koma höggi á sig.

Panduleni Itula, fyrrverandi tannlæknir sem er flokksbundinn í SWAPO, er sá frambjóðandi sem talinn er veita Geingob einna mesta samkeppni, en hann býður sig fram sem sjálfstæður frambjóðandi. Frambjóðandi stjórnarandstöðuflokksins PDM,  McHenry Venaani, er ekki talinn eiga roð í Geingob. Andstæðingar forsetans og SWAPO-flokksins segjast óttast að brögð verði höfð í tafli við framkvæmd kosninganna á miðvikudaginn, en allar kosningar í landinu eru rafrænar. Í síðustu kosningum týndust nokkrar kosningavélar.

Plaköt sem sýna Hage Geingob, forseta Namibíu, en hann sækist …
Plaköt sem sýna Hage Geingob, forseta Namibíu, en hann sækist nú eftir endurkjöri. AFP

1,4 milljón af þeim 2,45 milljónum sem búa í landinu, eru á kjörskrá. Ellefu bjóða sig fram til forseta og valið stendur á milli 15 flokka í þingkosningunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert