Genarannsóknir til bjargar simpönsum

Ólögleg verslun með simpansa veltir milljörðum dala á hverju ári, …
Ólögleg verslun með simpansa veltir milljörðum dala á hverju ári, en tegundin flokkast í útrýmingahættu. Ljósmynd/Aðsend

Á hverju ári eru um tíu þúsund simpansar fluttir ólöglega úr heimkynnum sínum í Vestur- og Mið Afríku og veltir markaðurinn með slík dýr milljörðum dala árlega. Yfirvöld ná aðeins að stöðva lítinn hluta þessara viðskipta á hverju ári og erfiðlega getur reynst að koma dýrunum í upprunaleg heimkynni sín á ný. Þá hefur illa gengið að uppræta vandamálið á þeim stöðum þar sem simpansaveiðarnar fara fram, en litlar upplýsingar hafa verið um nákvæmlega hvar eða hverjir standa að baki þeirra. Þetta getur hins vegar breyst á næstunni þökk sé gena- og erfðafræðirannsóknum.

Christina Hvilsom starfar sem genafræðingur við dýragarðinn í Kaupmannahöfn. Fyrr á þessu ári kom hún til Íslands á árlega líffræðingaráðstefnu sem haldin var í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar og ræddi hún þar við mbl.is um þá möguleika sem orðið til með genarannsóknum til að takast á við ólöglegar veiðar á dýrum, ekki síst á tímum þar sem við erum að horfa fram á að fjöldi dýrategunda deyr út árlega. Hefur hún einbeitt sér að málefnum simpansa, en tegundin telst í útrýmingarhættu samkvæmt flokkun IUCN.

Stödd í miðri útrýmingu dýralífs

Síðan í upphafi áttunda áratugarins er talið að mannkynið hafi drepið rúmlega helming allra villtra spendýra, fugla, fiska og skriðdýra. Segir Hvislom að í við séum stödd í miðri útrýmingu (e. extinction crisis) á dýralífi. „Við munum áfram missa einhverjar tegund, en það er enn von,“ segir hún.

Christina Hvilsom, genafræðingur við dýragarðinn í Kaupmannahöfn.
Christina Hvilsom, genafræðingur við dýragarðinn í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Segir hún að dýragarðar hafi á undanförnum áratugum þróast mikið og hlutverk þeirra breyst og í dag gegni þeir mikilvægu hlutverki í baráttunni fyrir því að viðhalda dýrategundum og er það gert í gegnum net dýragarða víða um heim. „Dýragarðar hafa þróast úr því að vera sýning á skrýtnum dýrum yfir í að vera umhverfisgarðar með vistkerfi til að viðhalda tegundum sem eru í hættu,“ segir hún.

Evrópskir dýragarðar fækka dýrum og þrengja fókusinn

Dýragarðar hafa samhliða þessu þrengt fókusinn og vísar Hvilsom meðal annars til þess að í þeim 400 dýragörðum sem í dag starfi í Evrópu séu 9.194 dýrategundir og dýrin séu samtals 1.761.308. Þegar mest var fyrir nokkrum áratugum voru tegundirnar hins vegar 12.811 og dýrin 5.051.561. Dýrunum hefur sem sagt fækkað um tæplega tvo þriðju frá því sem áður var.

Breytingin kom í kjölfar alþjóðlegra samninga sem samþykktir voru á áttunda áratugnum sem bönnuðu innflutning á viltum dýrum. Dýragarðarnir þurfa því að vera sjálfbærir. Hvilsom segir að lengi hafi verið vandamál að ekki var vitað hvaðan forfeður dýranna komu, en slíkt er mikilvægt til að reyna að komast hjá innræktun og ná að viðhalda ákveðinni breidd, líkt og gerist í viltu umhverfi.

Erfðabanki sem nær yfir milljónir dýra

Þetta er ein ástæða þess að erfðabankinn EAZA biobank var stofnaður í samstarfi evrópskra dýragarða. Þar er reynt að vera með gögn um öll dýr í görðunum, en auk þess er til annar dýragagnagrunnur sem inniheldur upplýsingar frá fjölda dýragarða um hvenær dýr fæddust og dóu og hvort þau hafi verið veik og svo framvegis. Segir Hvilsom að þau gögn nái alveg aftur til nítjándu aldarinnar í einhverjum tilfellum. Samtals hafi hún sem genafræðingur því aðgang að gögnum um 10 milljón dýr sem tilheyra 22 þúsund tegundum og 82 milljónum læknaskýrsla.

Simpansar eru veiddir ólöglega víða í Vestur- og Mið-Afríku og …
Simpansar eru veiddir ólöglega víða í Vestur- og Mið-Afríku og seldir áfram, oftast til Asíu, Evrópu og Norður-Ameríku. Ljósmynd/Aðsend

Og þá komum við að tengingunni við simpansana. Hvilsom hefur undanfarin ár helgað sig rannsóknum á þeim. Segir hún að árlega missi simpansar um 2-5% af landsvæði sínu og ef spár gangi eftir verði aðeins um 10% af upprunalegu landsvæði þeirra eftir árið 2030. Genarannsóknir hafa leitt í ljós að simpansar skiptast í fjórar undirtegundir, en það eru; vesturtegundin sem heldur sig meðal annars í Gíneu, Malí, Sengal og á Fílabeinsströndinni, Nígeríu-Kamerún tegundin, sem finna má í samnefndum löndum, Mið Afríku tegundin, sem má finna í Kamerún, báðum Kongó ríkjunum, Miðbaugs Gíneu og Gabon. Að lokum er það austurtegundin, en hana má meðal annars finna í Suður-Súdan, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (DRC) og Úganda.

Hefur tekist að snúa stöðunni við

Áður fyrr var ekki vitað um uppruna um 85% simpansa í dýragörðum í Evrópu og máttu þeir ekki fjölga sér þar sem ekki var öruggt hvaðan þeir komu. Segir Hvilsom að genaathuganir hafi svo leitt í ljós að röng skilríki hefðu fylgt mörgum dýrunum. Í dag hafi hins vegar tekist að snúa stöðunni við og er saga  76% simpansa í evrópskum dýragörðum nú þekkt. Þá hefur tekist að halda hreinræktun á góðum hopi dýra, þó umtalsverður fjöldi sé blanda af tveimur eða fleiri tegundum.

Hægt að finna uppruna dýranna með 50 kílómetra nákvæmni

Með dýpri rannsóknum á genamengi simpansa og reyndar fleiri tegunda apa og bera þau saman við upplýsingar um hvaðan dýrin koma hefur vísindamönnum tekist að setja upp einskonar genalandakort, en Hvilsom segir að með því að skoða gen dýra sé nú hægt að finna uppruna þeirra með um 50 kílómetra nákvæmni. „Framtíðin er að nota þetta til að berjast gegn ólöglegum innflutningi dýra,“ segir hún. Þegar hefur Hvilsom verið kölluð til vegna máls sem kom upp í Asíu þar sem hún fann út hvaðan simpansarnir komu og var þeim skilað í sitt náttúrulega umhverfi.

Ráðist að rótum vandans með markvissum hætti

Hvilsom segir að þessi tækni sé þó ekki síður hugsuð til að finna „heita reiti“ dýraveiða og dýrasmygls og svo að ráðast í aðgerðir með stjórnvöldum í viðkomandi löndum, en mörg þeirra reyna af veikum mætti að berjast gegn ólögmætum veiðum dýranna og útflutningi þeirra. Segir Hvilsom að með þessari aðferð sé hægt að beina fjármunum og mannskap með mun markvissari hætti á nákvæmlega þá staði þar sem ólöglega veiðin eigi sér stað. Segir hún að þó þetta verkefni sé lengst komið áfram í tilfelli simpansa sé líklega hægt að yfirfæra það á fleiri tegundir í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka