Trump reiðubúinn til viðræðna

AFP

Mjög er þrýst á að dregið verði úr spennunni í Mið-Austurlöndum og er Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, reiðubúinn að hefja viðræður við Írana að nýju. Hann biður leiðtoga landsins að hætta að drepa mótmælendur og hvetur þá til þess að opna netið að nýju og leyfa blaðamönnum að fylgjast með.

Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Josep Borrell, gagnrýnir Írana harðlega fyrir að hafa handtekið sendiherra Bretlands í Teheran og hvetur þess að dregið verði úr spennu sem ríkir.

Emírinn í Katar, Tamim bin Hamad Al-Thani, fór á fund forseta Írans, Hassan Rouhani, í dag og segir að þeir séu sammála um að draga verði úr þeirri spennu sem ríkir í Mið-Austurlöndum. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er reiðubúinn til að setjast að samningaborðinu við Írana, að því er fram kemur í tilkynningu frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Tamim bin Hamad Al-Thani sagði við fréttamenn eftir fundinn með Rouhani í Teheran að þeir hafi verið sammála um að eina lausnin væri að draga úr stigvaxandi spennu og hefja viðræður. „Viðræður eru eina lausnin til að leysa þessa deilu,“ sagði hann á blaðamannafundi fyrir skömmu, samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar.

Sendiherra Bretlands, Rob Macaire, var viðstaddur minningarathöfn um þá sem létust þegar úkraínska farþegaþotan var skotin niður. Fljótlega breyttist minningarathöfnin í mótmæli en hann var handtekinn af lögreglu og haldið stutta stund. Að sögn aðstoðarutanríkisráðherra Írans, Seyed Abbas Araghchi, var Macaire ekki handtekinn heldur handtekinn sem óþekktur útlendingur á ólöglegri samkomu. Eftir að í ljós kom hver væri á ferðinni var honum sleppt.

Náin tengsl eru á milli Katar og Bandaríkjanna og er stærsta herstöð Bandaríkjahers í þessum heimshluta í Katar. 

Trump ávarpar leiðtoga Írans á Twitter og biður þá um að drepa ekki mótmælendur. „Þúsundir hafa þegar verið drepnar eða fangelsaðar af ykkur og heimurinn fylgist með. Það sem skiptir meira máli er að Bandaríkin fylgjast með. Kveikið aftur á netinu og leyfið fréttamönnum að fylgjast með. Hættið að drepa ykkar stórkostlegu þegna!“

Fjölmenn mótmæli eru fyrir utan sendiráð Breta í Teheran og eru mótmælendurnir úr hópi stuðningsmanna stjórnvalda. Sendiherrann var boðaður á fund í utanríkisráðuneyti Írans vegna atviksins í gærkvöldi að því er fram kemur á vef Sky News

Þar kemur fram að sjá megi á myndskeiðum fjölmennt lið við sendiráðið og margir beri spjöld þar sem ritað er á farsi og eru með myndir af Qassem Soleimani sem var drepinn í drónaárás Bandaríkjahers.

Óeirðarlögreglan er mætt á Vai e Asr-torgið í Teheran þar sem von er á að námsmenn komi saman til mótmælafundar síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert