Neita því að hafa skotið á mótmælendur

Frá mótmælum nærri háskóla í Teheran á laugardaginn.
Frá mótmælum nærri háskóla í Teheran á laugardaginn. AFP

Lögreglan í Teheran, höfuðborg Írans, neitar því að hafa skotið á mótmælendur í borginni í gær, en myndbönd sem birst hafa á samfélagsmiðlum sýna átök á milli lögreglu og mótmælenda og byssuhvellir virðast heyrast á þeim sumum. 

Mótmælin brutust út á laugardag eftir að ríkisstjórn landsins játaði að hafa grandað flugvél frá Ukraine International Airlines fyrir mistök aðfaranótt miðvikudags í síðustu viku.

Í frétt BBC segir að fregnir hafi borist af því að fjöldi manns hafi særst þegar öryggissveitir lögreglu leystu upp mótmæli á Azadi-torgi í Teheran í gær. Byssuhvellir virðast heyrast í myndbandi sem birt er á Twitter.

Annað myndband sýnir hvernig særð kona er dregin í burtu, en samkvæmt frétt BBC öskrar fólk í myndskeiðinu að hún hafi fengið byssukúlu í fótinn.

Mótmælandi sem var á staðnum segir við BBC að fyrst hafi öryggissveitir barið á mótmælendum með kylfum og síðar dregið upp byssur og skotið inn í mannfjöldann, eftir að mótmælendur byrjuðu að kyrja harðorð slagorð gegn æðstaklerki landsins, Ali Khamenei.

Skammt er síðan að tíðindi bárust frá Íran um harkalegar aðgerðir stjórnvalda gegn mótmælendum, en í nóvembermánuði voru umfangsmikil mótmæli vegna verðhækkana á bensíni víða um landið.

Þeim var svarað af mikilli grimmd og hörku og telja sumir greinendur að jafnvel hafi stjórnvöld myrt yfir 1.000 manns í harkalegum aðgerðum til þess að kveða mótmælin niður, en erfitt hefur reynst að sannreyna þær fregnir.

Lögreglustjórinn í Teheran, Hossein Rahimi, hefur alfarið neitað því að til slíkra aðgerða hafi verið gripið nú. Hann segir að lögregla hafi mætt mótmælendum með þolinmæði og umburðarlyndi að vopni.

Frá mótmælum í Teheran á laugardaginn.
Frá mótmælum í Teheran á laugardaginn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka