„Við erum í búrum“

Yfir tíu þúsund hafa látist úr kórónuveirunni á Spáni og í Belgíu eru rúmlega eitt þúsund dauðsföll skráð vegna veirunnar. Þar hefur tala látinna tvöfaldast á þremur dögum en meðal skýringa er að búið er að uppfæra skráningar dauðsfalla á dvalarheimilum aldraðra. Yfir hálf milljón smita hafa verið staðfest í Evrópu.

Fólk á Spáni líkir útgöngubanninu við að vera lokað í búrum og bareigendur á Tenerife hafa gripið til ýmissa leiða til að afgreiða drykki þrátt fyrir bann.

AFP

Tæplega ein milljón jarðarbúa hefur greinst smituð af kórónuveirunni. Í Bandaríkjunum er sex vikna gamalt barn meðal þeirra sem hafa látist úr veirunni og er yngsta fórnarlamb veirunnar sem hefur kostað tæplega 48 þúsund mannslíf á rúmum þremur mánuðum.

Nýburinn hafi verið fluttur á sjúkrahús í Connecticut undir lok síðustu viku og að sögn ríkisstjóra Connecticut, Ned Lamont, var barnið með COVID-19. „Þetta er algjörlega skelfilegt,“ skrifar hann á Twitter.

AFP

Ríkisstjórnir alls staðar í heiminum reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að berjast við faraldurinn og er um helmingur jarðarbúa í einhvers konar sóttkví. Hömlur sem lagðar hafa verið á fólk, sem eru nauðsynlegar út frá heilbrigðissjónarmiðum, geta valdið matarskorti að sögn sérfræðinga og því hafa margar af stærstu matvörukeðjum heims gripið til þess  ráðs að kaupa gríðarlegt magn nauðsynjavöru.

Rauk að heiman með helstu nauðsynjar

Í gær greindu frönsk og bresk yfirvöld frá því að aldrei hafi jafn margir látist af völdum veirunnar í löndunum tveimur á einum sólarhring og þá. Samt virðist sem toppnum verði náð á einhverjum stöðum í Evrópu fljótlega. Yfir 13 þúsund eru látnir á Ítalíu og 10 þúsund á Spáni. Á sama tíma hefur dregið úr fjölgun nýrra smita og vonast sóttvarnalæknir Spánar, Fernando Simon, að þar í landi sé toppnum náð. 

Í dag var greint frá því að 950 hafi látist síðsta sólarhringinn á Spáni og eru því alls 10.003 látnir þar úr landi úr kórónuveirunni. 

AFP

Þegar María José Rodríguez heyrði í fréttum að bærinn hennar í norðausturhluta Spánar yrði settur í sóttkví innan nokkurra klukkutíma vissi hún að annað hvort yrði hún að fara eða eiga annars á hættu að fjölskyldufyrirtækið færi í þrot.

Hún greip poka með matvælum, föt til skiptanna og bíllyklana, kvaddi eiginmanninn og ók að heimili sonar þeirra í þorpi í nágrenninu. Sonur hennar býr fyrir ofan bakarí fjölskyldunnar í litla þorpinu og í tvær vikur hefur hún ekki getað farið heim í þorpið sem hún býr allajafna,  Igualada. Þar er aftur á móti eiginmaður hennar lokaður inni og þau hafa ekki hugmynd um hvenær þau muni hittast næst.

„Ef ég hefði ekki flutt út til að halda bakaríinu gangandi hefðum við þurft að loka því,“ segir Rodríguez, í samtali við New York Times. „En við höfum það gott og ég hringi í eiginmann minn 50 sinnum á dag. Að minnsta kosti,“ bætir hún við.

Þetta er ekki kvikmynd

AFP

Lögregla hefur komið upp vegartálmum á Spáni og eru allir stöðvaðir sem þar eiga leið um. Aðeins þeir sem þurfa að komast til og frá vinnu mega halda för sinni áfram. Það er ef þeir eru í framvarðarsveit. Lokanir hafa skilið að fjölskyldur og sett mörg heimili í vanda vegna tekjumissis. 

„Við erum í búrum og erum að læra að hætta að reyna hafa stjórn á hlutunum,“ segir Gemma Sabaté, 48 ára sjúkraþjálfari sem er lokuð inni á heimili sínu en á Spáni fær fólk aðeins að yfirgefa heimili sín til að kaupa í matinn, viðra hunda sína og leita á bráðamóttöku. En á stöðum eins og Igualada er eftirlitið enn meira því þar er fylgst nákvæmlega með umferðinni. Marc Castells, bæjarstjóri í Igualada, segir að þegar hann fari heim til sín á kvöldin líði honum eins og hann sé sá eini sem er eftir í kvikmynd. „Fyrir utan að þetta er ekki kvikmynd.“

Afgreiddi drykki í gegnum matvöruverslun

Bareigandi á Tenerife hefur verið sektaður fyrir að brjóta gegn útgöngubanninu með því að afgreiða viðskiptavini í matvöruverslun við hliðina á barnum. Á Spáni eru allir barir, veitingastaðir og allar verslanir sem ekki selja nauðsynjavöru lokaðir. En bareigandi í Icod de Vinos, sem er skammt frá Santa Cruz hafði fundið leið fram hjá banninu að sögn lögreglu því þrátt fyrir aðalinngangurinn hafi verið lokaður voru drykkir afgreiddir í gegnum dyr á milli barsins og matvöruverslunarinnar. Að sögn bareigandans var hann bara í búðinni að kaupa þurrkaða ávexti en svo einkennilega vildi til að nokkrum drykkjum hafði verið komið fyrir á barborðinu. Tveir aðrir bareigendur á Tenerife hafa einnig verið sektaðir vegna brota á reglum um bann.

Fjöldi látinna meira en tvöfaldast á viku

AFP

Þrátt fyrir að kórónuveiran COVID-19 leggist þyngst á eldra fólk og þá sem eru veikir fyrir er það alls ekki sjálfgefið þar sem nokkur börn hafa látist úr veirunni. Þar á meðal 16 ára frönsk stúlka. 12 ára belgískur drengur og 13 ára breskur drengur. Ekkert þeirra glímdi við veikindi áður en þau smituðust af veirunni. 

AFP

Forstjóri WHO, Tedros Adhanom Ghebreyesus, segir að það sé ógnvænlegt hversu hratt fjölgar í hópi smitaðra í nánast öllum löndum. „Fjöldi látinna hefur meira en tvöfaldast á viku. Á næstu dögum verður yfir milljón smituð og 50 þúsund látnir.“

Yfir fimm þúsund eru látnir í Bandaríkjunum en um fjórðungur allra þeirra sem hefur verið staðfest að séu með veiruna eru búsettar þar í landi. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, óttast það versta og segir að staðan eigi bara eftir að versna. Að sögn Trumps verða næstu dagar hryllilegir. „En jafnvel á krefjandi tímum sem þessum fyllast Bandaríkjamenn ekki örvæntingu. Við leyfum ekki óttanum að taka yfir.“

AFP

Greindum smitum fjölgar stöðugt í Bandaríkjunum og eru þau orðin yfir 216 þúsund talsins. Meira en þrír af hverjum fjórum í Bandaríkjunum búa við sóttkví af einhverju tagi. Þar á meðal tugþúsundir fanga sem var sagt í gær að þeir yrðu læstir inni í klefum sínum næstu tvær vikurnar. 

Miklagljúfri hefur verið lokað til að koma í veg fyrir að ferðamenn fari þangað og í New York hefur öllum úti körfuboltavöllum verið lokað. 

Byggt á AFP, New York Times, BBC, Guardian, CNN og Sky. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert