Segir lögregluna hafa orðið fyrir óréttlæti

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í nýlegu viðtali að bandaríska lögreglan hafi „ekki fengið réttláta meðferð“ og virtist verja hvítan lögreglumann sem hefur verið sakaður um að hafa myrt svartan mann.

Lögreglumaðurinn Garrett Rolfe var ákærður í gær fyrir að hafa skotið Rayshard Brooks, 27 ára, í bakið og bætt um betur og sparkað í hann þegar hann lá á jörðinni í blóði sínu. 

Brooks dó innan við þremur vikum eftir að George Floyd lést eftir að hafa verið haldið niðri af lögreglumanni í borginni Minneapolis. Mikil mótmæli hafa orðið í Bandaríkjunum í kjölfarið vegna lögregluofbeldis. 

„Þetta var hræðilegt mál en maður má ekki veita viðnám við handtöku,“ sagði Trump um dauða Brooks í viðtali við Sean Hannity á sjónvarpsstöðinni Fox News.

Bentley Hydlebeerg, sem er fjögurra ára, tekur þátt í mótmælum …
Bentley Hydlebeerg, sem er fjögurra ára, tekur þátt í mótmælum gegn lögregluofbeldi í garð svartra Bandaríkjamanna í borginni Atlanta. AFP

„Vonandi fær hann réttláta málsmeðferð vegna þess að lögreglan hefur ekki fengið réttláta meðferð í okkar landi,“ sagði hann.

„En maður má ekki veita viðnám á þennan hátt. Þetta endaði í hræðilegu ósætti og sjáðu hvernig þetta fór. Mjög slæmt. Mjög slæmt.“

Trump minntist einnig á Floyd og sagðist ekki hafa getað horft á tæplega níu mínútna langt myndbandið af dauða hans. „Hver gæti horft á svoleiðis?“ sagði hann.

Forsetinn gaf út tilskipun á þriðjudag um að bann yrði sett við hættulegu kyrkingartaki. Gagnrýnendur segja að hann hafi ekki gengið nógu langt, þar á meðal Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.

„Þeir gera ekki neitt og þeir vilja vilja draga úr fjármagni og þeir vilja afnema, þeir vilja leggja niður lögregludeildir,“ sagði Trump um demókrata í þættinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert