Kína skipað að loka ræðismannsskrifstofu í Houston

Yfirvöld í Bandaríkjunum tilkynntu í dag að Kína hefði verið skipað að loka ræðismannsskrifstofu sinni í Houston-borg í Texas-ríki í Bandaríkjunum. Er þetta nýjasta vendingin í stigmagnandi þrætum stórveldanna. Tilkynninginn olli mikilli reiði hjá yfirvöldum í Peking sem hafa lofað því að svara fyrir sig.

Togstreitan milli ríkjanna hefur stigmagnast mikið, meðal annars vegna gagnrýni Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna kórónuveirunnar og kínversk stjórnvöld hafa legið undir ámæli vegna nýrra öryggislaga sem gilda í Hong Kong og eru sögð andlýðræðisleg.

Þá hafa bandarísk yfirvöld sagt kröfur Kína um yfirráð yfir hafsvæðum í Suður-Kínahafi ólögmætar og svo hafa kínversk stjórnvöld verið sökuð af ýmsum þjóðum um gróf mannréttindabrot gegn úígúramúslimum í Xinjiang-héraði í Kína.

Þá er ótalin Huawei-deila ríkjanna, en Bandaríkjamenn halda því fram að kínverska fjarskiptafyrirtækið hafi „bakdyraaðgang“ að farsímakerfum sem byggjast á búnaði frá Huawei. Bandaríkjamenn hafa sett fyrirtækið á „svartan lista“ og hafa hvatt aðrar þjóðir til þess einnig.

Verja bandarísk hugvit og persónuupplýsingar 

„Við höfum fyrirskipað lokun ræðismannsskrifstofu Kína í Houston, til að verja bandarískt hugvit og persónuupplýsingar Bandaríkjamanna,“ sagði Morgan Ortagus, talskona utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, í Danmörku þar sem Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er í formlegri heimsókn.

Hún bætti við að samkvæmt Vínarsáttmálanum sé gestaríkjum „skylt að skipta sér ekki af innanríkismálefnum“ annarra ríkja en útskýrði ekki frekar á hvaða grundvelli ákvörðunin um að loka ræðismannsskrifstofunni byggði.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Sagðir vera að brenna skjöl

Í gærkvöldi, áður en greint var frá ákvörðuninni, voru slökkviliðs- og lögreglumenn kallaðir út að ræðismannsbústaðnum í Houston vegna ábendinga um að verið væri að brenna gögn í húsgarðinum. Lögreglan í Houston tísti að borist hefðu ábendingar um reyk en lögreglumönnum hafi verið meinaður aðgangur að byggingunni.

Í Peking sagði Wang Wenbin, talsmaður utanríkisráðuneytisins, að kínverskum yfirvöldum hefði verið greint frá ákvörðuninni um að ræðismannsskrifstofunni þyrfti að loka í gær, þriðjudag. Sagði hann ákvörðunina „forkastanlega og tilefnislausa“ og að hún myndi skemma samskipti ríkjanna.

Mun svara á viðeigandi hátt

„Kína hvetur Bandaríkin eindregið til þess að draga þessa röngu ákvörðun til baka, ella mun Kína tvímælalaust svara á viðeigandi og nauðsynlegan hátt,“ sagði Wang á blaðamannafundi og bætti við:

„Þetta er einhliða pólitísk ögrun bandarískra stjórnvalda, sem brýtur alvarlega gegn alþjóðarétti og tvíhliða samkomulagi Bandaríkjanna og Kína um ræðismenn.“

Ræðismannsskrifstofum Kína í Bandaríkjunum fækkar nú um eina og verða þá fjórar eftir auk sendiráðs Kína í Washington.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ræða …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ræða málin. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert