Rændu 136 börnum og biðja um lausnargjald

Skólabörn á dreifbýlustu svæðum Nígeríu eru í hvað mestri hættu …
Skólabörn á dreifbýlustu svæðum Nígeríu eru í hvað mestri hættu á árásum þarlendra ódæðismanna, sem svífast einskis í leit sinni að gróða. AFP

Vopnaðir árásarmenn rændu 136 skólabörnum í Nígeríu á sunnudag. Þetta tilkynntu nígerísk yfirvöld í morgun. Börnin voru í skólanum þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða og fóru með þau í skóglendi í grenndinni til þess að freista þess að semja um lausnargjald. 

Árásir af þessu tagi eru tíðar í dreifbýlum í Nígeríu, þar sem skólabörn dvelja á heimavist þar sem lítið er um öryggisráðstafanir. Árásin sem tilkynnt var um í dag er aðeins ein margra slíkra árása sem gerðar hafa verið undanfarin misseri. Yfir 700 börnum hefur verið rænt síðan í desember í fyrra.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, hefur hvatt lögregluyfirvöld og leyniþjónustu landsins til þess að setja leitina að börnunum í algjöran forgang.

Foreldrar barnanna kalla eftir því að yfirvöld reyni hvað þau geta til þess að koma þeim aftur til fjölskyldna sinna. Yfirvöld í Nígeríu segja þó að ekki verði samið um lausnargjald, heldur verði frekar samið um að börnin fái að snúa aftur til síns heima, gegn þá mögulega vægari refsingu árásarmannanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert