Boris Johnson staðfestir afsögn sína

Boris Johnson fyrir framan Downingstræti í morgun.
Boris Johnson fyrir framan Downingstræti í morgun. AFP/Niklas Hallen

Boris Johnson hefur staðfest afsögn sína sem leiðtogi Íhaldsflokksins og að hann ætli að stíga í kjölfarið af stalli sem forsætisráðherra Bretlands. Nánar verður sagt frá því hvernig því ferli verður háttað í næstu viku. Þessu greindi hann frá við Downingstræti 10.

Johnson sagði það greinilegan vilja þingmanna Íhaldsfloksins að nýr forsætisráðherra komi í hans stað og að hann væri sammála því að það ferli þyrfti að hefjast núna.

Hann þakkaði þeim milljónum sem kusu Íhaldsflokkinn á sínum tíma, margir hverjir í fyrsta sinn, og benti á að það hafi verið stærsti meirihlutinn sem hafi náðst frá árinu 1987.

Hann sagðist hafa barist fyrir því að halda áfram í embætti bæði vegna þess að hann vildi það sjálfur og að honum fannst það skylda sín að fylgja eftir kosningaloforðum sínum.

Boris Johnson í morgun.
Boris Johnson í morgun. AFP/Justin Tallis

Stoltur af sínum afrekum

Johnson kvaðst stoltur af sínum afrekum og að Bretland hafi endurheimt valdið til að semja sín eigin lög. Einnig sagðist hann ánægður með hversu hratt landið opnaði á nýjan leik eftir kórónuveirufaraldurinn og hvernig Bretland hefur verið leiðandi í aðgerðum Vesturlanda vegna innrásar Rússa í Úkraínu.

AFP

Hjarðhegðun

Hann sagði efnahagsumhverfið hafa verið erfitt að undanförnu, bæði heima fyrir og í öðrum löndum og bætti við að erfitt verði að geta ekki klárað hugmyndir sínar og fyrirhuguð verkefni.

Hann talaði um hjarðhegðun í sambandi við brotthvarf hans úr embætti en nefndi í framhaldinu að enginn sé ómissandi. Næsti leiðtogi muni koma landinu í gegnum erfiða tíma og lækka skatta.

Johnson gengur aftur inn í Downingstræti að lokinni yfirlýsingunni.
Johnson gengur aftur inn í Downingstræti að lokinni yfirlýsingunni. AFP/Danel Leal

Erfitt að hætta í besta starfinu

Hann kvaðst ætla að veita næsta leiðtoga Íhaldsflokkinn eins mikinn stuðning og mögulegt er. Sömuleiðis sagði hann að mörgum Bretum verði eflaust létt við afsögn hans en að einhverjir verði kannski vonsviknir.

„Ég vil að þið vitið hversu sorgmæddur ég er yfir því að vera að hætta í besta starfi í heimi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert