Stunginn þúsund sinnum af býflugum

Maðurinn hafði verið að grisja tré vinar síns er hann …
Maðurinn hafði verið að grisja tré vinar síns er hann rakst í býflugnabúið en hann er sagður hafa verið stunginn um þúsund sinnum. AFP

Tvítugur maður er í öndunarvél eftir að hafa verið stunginn af býflugum í Ohio í Bandaríkjunum samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs. Að sögn þeirra var maðurinn stunginn þúsund sinnum.

Manninum, Austin Bellamy, var komið undir læknishendur eftir að hafa mátt þola eitt þúsund býflugnastungur. Hann hafði verið að grisja tré vinar síns er hann rakst í býflugnabú með framangreindum afleiðingum.

„Þegar hann byrjaði að klippa trjágreinarnar þá komu býflugurnar út. Hann reyndi að koma sér niður úr trénu en hann gat það ekki,“ sagði Phyllis Edwards, amma mannsins, við fjölmiðla í dag. „Hann kallaði; „Hjálp! Hjálpið mér! Hjálp!,“ en enginn gat hjálpað honum,“ segir hún og bætir við að þeir sem voru á jörðu niðri þurftu að flýja undan býflugunum sem komu á eftir þeim.

Móðir mannsins, Shawna Carter, hefur hafið söfnun til að standa undir sjúkrakostnaði Bellamy. Hún sagði við fjölmiðla að læknar hafi í heilan dag þurft að fjarlæga býflugur sem Bellamy hafði innbyrt. Að sögn lækna er búist við að Bellamy muni ná fullum bata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert