Gerðu drónaárásir á ísraelskar herstöðvar

Liðsmenn Hizbollah hafa gert fleiri flugskeytaárásir á ísraelsk skotmörk undanfarið. …
Liðsmenn Hizbollah hafa gert fleiri flugskeytaárásir á ísraelsk skotmörk undanfarið. Myndin var tekin fyrr í þessum mánuði. AFP

Liðsmenn Hizbollah-samtakanna í Líbanon, sem njóta stuðnings yfirvalda í Íran, segjast hafa gert drónaárásir á tvær herstöðvar Ísraela í norðurhluta landsins. Þetta hafi verið gert í hefndarskyni vegna vígamanns sem Ísraelar felldu, en Ísraelar sögðu að það hefði verið mikilvæg aðgerð.  

Frá því hryðjuverkasamtökin Hamas gerðu árás á Ísrael 7. október í fyrra, sem leiddi til hernaðaraðgerða Ísraels á Gasa, þá hafa liðsmenn Hizbollah og Ísraelsher skipst á skotum yfir landamærin nánast linnulaust. 

Undanfarna daga hefur Hizbollah gert fleiri flugskeytaárásir á Ísraela. Nýjustu árásirnar hafa beinst að svæðum sem þeir hafa ekki áður beint sjónum sínum að, en flestar árásirnar hingað til hafa verið gerðar á svæði við landamæri ríkjanna. 

Hæfðu ekki skotmörkin

Talsmenn Hizbollah greinir frá árásunum í dag sem var beint að tveimur ísraelskum herstöðvum í norður af Acre. Talsmenn Ísraelshers segja aftur á móti að þeim hafi ekki tekist að hæfa skotmörkin. 

Þá sögðu talsmenn Hizbollah að með þessu væru þeir að hefna fyrir drónaárás Ísraela sem felldu einn liðsmann samtakanna í suðurhluta Líbanons fyrr um daginn. 

Heimildarmaður AFP-fréttaveitunnar, sem er með tengsl við Hizbollah, sagði að Ísraelar hafi drepið verkfræðing sem starfaði fyrir Hizbollah, en hann hafði það verkefni að aðstoða við loftvarnir samtakanna. Hann lést í drónaárás sem var gerð á ökutæki sem hann var í. 

Árásin var gerð í nágrenni við Abu al-Aswad, sem er skammt frá hafnarborginni Tyre, sem er um það bil 35 kílómetra frá landamærunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka