Hamas birtu myndband af tveimur gíslum

Omri Miran, 46 ára, og Keith Siegel, 64 ára, eru …
Omri Miran, 46 ára, og Keith Siegel, 64 ára, eru á lífi, eins og sést í nýju myndbandi sem Hamas birti í dag. Samsett mynd/AFP

Hamas-hryðjuverkasamtökin birtu í dag myndband af tveimur ísraelskum gíslum sem eru í haldi vígamannanna.

Gíslarnir eru hinn hálf-bandaríski Keith Siegel, 64 ára, og Omri Miran, 46 ára, en Hamas-liðar hrepptu þá í gíslingu í hryðjuverkaárásinni þann 7. október.

„Sönnunin um að Keith Siegel og Omri Miran séu á lífi er skýrasta vísbendingin um að Ísraelsstjórn verði að gera allt til að samþykkja samning um lausn allra gíslanna fyrir þjóðhátíðardaginn [14. maí]“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum Hostages and Missing Families Forum en þau báru kennsl á gíslana.

„Hinir lifandi ættu að snúa aftur til endurhæfingar og hinir myrtu ættu að fá virðulega greftrun.“

Nýjasta myndbandið er tekið aðeins þremur dögum eftir að Hamas-samtökin birtu annað myndband sem sýnir gíslinn Hersh Goldberg-Polin á lífi.

202 dagar

„Ég hef verið hér í haldi Hamas-samtakanna í 202 daga. Ástandið hér er óþægilegt, erfitt og sprengjurnar margar,“ segir Miran í myndskeiðinu, sem var sennilega tekið fyrr í vikunni.

„Það er kominn tími til að ná samningi sem kemur okkur héðan heilum og öruggum... Haldið áfram að mótmæla, þannig að það verði samið núna.“

Í myndbandinu sem birt var í dag segir að Hamas-samtökin séu að kynna sér nýjustu tillögu Ísraelsmanna um vopnahlé á Gasaströndinni eftir að fregnir bárust af því að Egyptar hefðu sent sendinefnd til Ísraels til að ganga í samningaviðræður.

Gíslinn Omri Miran, 46 ára Ísraeli.
Gíslinn Omri Miran, 46 ára Ísraeli. AFP

Brast í grát

Siegel brotnaði niður og brast í grát þegar hann talaði í myndbandinu.

„Við erum í hættu hér, það eru sprengjur, þetta er streituvaldandi og ógnvekjandi,“ sagði hann og grét. „Ég vil segja fjölskyldunni minni að ég elska ykkur heitt. Það er mér mikilvægt að þið vitið að mér líður vel.“

„Ég á mjög fallegar minningar frá páskunum [páskahátíð gyðinga] í fyrra sem við héldum öll saman. Ég vona innilega að við fáum bestu mögulegu uppákomuna,“ sagði hann og hvatti Benjamín Netanjahú forsætisráðherra til að ná samningum fljótlega.

Siegal brast í grát.
Siegal brast í grát. AFP

Hvatti mótmælendur til dáða

Siegel sagðist hafa séð myndskeið af mótmælum í Ísrael þar sem þess var krafist að Ísraelsstjórn gengi til samningaborðsins til að tryggja lausn gísla.

„Ég vona og trúi því að þið haldið áfram,“ sagði hann og ávarpaði þar mótmælendur sem hafa haldið reglulegar mótmælafundi þar sem Netanyahu er hvattur til að semja um vopnahlé.

Hamas-liðar tóku um 250 manns í gíslingu í árás sinni á Ísrael þann 7. október, að sögn ísraelskra ráðamanna. Ísraelsher segir að 129 séu enn í haldi á Gaza, þar af séu 34 látnir.

Árásin varð til þess að um 1.170 manns létu lífið, flestir almennir borgarar, samkvæmt talningu AFP. Ísraelsher hefur staðið í hefndarárásum á Gasa og drepið 34.388 manns, flest konur og börn, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa.

Hinn 64 ára Keith Siegal í myndbandi sem Hamas birti.
Hinn 64 ára Keith Siegal í myndbandi sem Hamas birti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka