Götuverðmæti 300 milljónir

Mikið magn af fíkniefnum fannst í gámi í Straumsvíkurhöfn.
Mikið magn af fíkniefnum fannst í gámi í Straumsvíkurhöfn. mbl.is/Júlíus

Götuverð fíkniefnanna sem fundust í skipagámi í Straumsvíkurhöfn er áætlað um 300 milljónir króna. Smyglið var mjög umfangsmikið og efnin sterk að sögn lögreglu. Þrír rannsóknarlögreglumenn hafa unnið sleitulaust að rannsókn málsins síðan snemma á þessu ári.

Alls reyndust 10 kg af amfetamíni vera falin í gámi í skipi sem kom frá Rotterdam til Straumsvíkur í byrjun október. Einnig fundust 200 grömm af kókaíni, rúmlega 8 þúsund e-töflur og verulegt magn af sterum, bæði í töflu- og vökvaformi. Tveir menn sitja í gæsluvarðhaldi, annar sem handtekinn var þegar skipið kom til landsins en hinn var handtekinn nú um helgina. Óskað verður eftir framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir honum í dag.

„Við teljum að ef efnin væru seld á götunni nákvæmlega eins og þau líta út í dag á þeim styrkleika sem þau eru í samkvæmt mælingu væri verðmætið að minnsta kosti 100 milljónir króna. En það myndi enginn selja þau á þeim styrkleika,“  sagði Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn  á blaðamannafundi lögreglu í dag. Nefndi hann sem dæmi að styrkleiki amfetamínsins væri um 40-50%. Götustyrkleiki er hinsvegar í kringum 10%. „Ég myndi því frekar áætla að verðmæti á götunni væri nærri 300 milljónum króna.“ Ekki liggur fyrir hvað smyglararnir greiddu sjálfir fyrir farminn, en Karl Steinar segir því miður ljóst að þeir sem stundi þessa iðju geti hagnast verulega á viðskiptunum.

Ekkert bendir til þess að fyrirtækið sem átti vörurnar í gámnum hafi nokkuð komið nálægt smyglinu, að sögn Karls Steinars, en annar þeirra sem situr í gæsluvarðhaldi var starfsmaður þess og nýtti sér þá löglegu starfsemi sem þar var í gangi sem smyglleið. Sá hefur ekki komið við sögu lögreglu áður en hinn maðurinn, sem talinn er höfuðpaurinn, hefur áður hlotið dóma fyrir fíkniefnabrot.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert