Tímafrek aðalmeðferð í Straumsvíkurmáli

Frá aðalmeðferðinni í morgun.
Frá aðalmeðferðinni í morgun. Morgunblaðið/Ómar

Aðalmeðferð hófst í Straumsvíkurmálinu svonefnda við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Óvíst er hvenær hún klárast en mikið hefur verið rætt um símhlustanir og herbergjahlustanir í morgun, og hvort ekki verði að spila upptökurnar. Hleranirnar stóðu yfir í um sex mánuði.

Sex eru ákærðir í málinu, ákæran er í nokkrum liðum og þáttur sakborninga afar mismunandi. Þá hefur þáttur eins sakbornings verið klofinn frá málinu og verður rekinn í sérstöku máli, þar sem óskað var eftir því að fram færi sakhæfismat á viðkomandi.

Stærsti ákæruliðurinn er á hendur tveimur karlmönnum, Geir Hlöðveri Ericssyni og Sævari Sverrissyni, sem gefið er að sök að hafa flutt inn til landsins tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin fluttu mennirnir til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október. Lögregla lagði hald á efnin samdægurs.

Þegar hefur verið tekin skýrsla af Geir Hlöðveri í morgun en hann neitar sök í stærsta ákæruliðnum. Símtöl milli hans og Sævars Sverrissonar skýrði Geir með þeim hætti að Sævar hefði selt honum 500 grömm af amfetamíni og væri sífellt að reyna að rukka hann. Hann sagðist hafa keypt amfetamínið á 2,5 milljónir króna, eða fimm þúsund krónur grammið. 

Fram kom í málinu að samskipti milli Geirs og Sævars hefðu aðeins farið fram í gegnum einn síma, en Geir sagði ljóst af símtölunum að aðeins væri verið að ræða um skuldina.

Aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert