Fréttaskýring: Annar höfuðpaurinn lykilvitni

Straumsvíkurmálið svonefnda var þingfest í morgun. Höfuðpaurarnir neituðu báðir sök hvað varðar innflutning fíkniefna en annar þeirra játaði sök hvað varðar innflutning á sterum. Báðir eru ákærðir fyrir skipulagningu innflutningsins og verður forvitnilegt að sjá hvernig ákæruvaldinu tekst að fletta ofan af málinu við aðalmeðferðina.

Auk þess að rýna í ákæruna getur verið gagnlegt að rifja upp umfjöllun fjölmiðla um málið síðan það kom upp. Fréttastofa Stöðvar 2 upplýsti fyrst um málið að kvöldi 30. október sl. og gaf lögregla höfuðborgarsvæðisins út tilkynningu seinna sama kvöld. Þar kom fram þetta helsta, þ.e. að tveir menn væru í haldi vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefna og stera og að efnin hefðu komið til landsins 10. október.

Aftarlega í tilkynningu lögreglunnar var svo komið að kjarna málsins. Rannsókn hafði staðið yfir í allangan tíma áður en gámurinn kom til landsins og var unnin í samvinnu við Tollgæsluna. Seinna, á blaðamannafundi lögreglunnar, var upplýst um að þrír rannsóknarlögreglumenn hefðu unnið að málinu frá því snemma árið 2011. Þetta er ágætt að hafa í huga þegar ákæran í málinu er skoðuð, en fimm af átta ákæruliðum tengjast málum sem komu upp áður en gámurinn kom til landsins, og tengist annar höfuðpaurinn þeim öllum.

Höfuðpaur handtekinn tvívegis skömmu áður

Fyrst ber að nefna ákærulið I. en þar er Geir Hlöðver Ericsson, ásamt öðrum sakborningi, gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum saman 659 grömm af amfetamíni auk nokkurra gramma af hassi. Lögregla fann umrædd efni við húsleit á heimili Geirs Hlöðvers 30. júní í fyrra. Við þingfestinguna í morgun gekkst Geir Hlöðver við vímuefnunum sem fundust. Hinn maðurinn neitaði hins vegar sök.

Í öðrum ákærulið er bæði Geir Hlöðveri og sakborningnum úr fyrsta ákærulið gefið að sök fíkniefnalagabrot. Þar koma hins vegar tveir sakborningar til viðbótar við sögu. Atburðarásin  29. september er í stuttu máli þannig, samkvæmt ákæru, að tilgreindur maður flutti a.m.k. 255 grömm af kókaíni til landsins. Sá afhenti þau tæplega fertugri konu sem einnig ákærð er í málinu, en ekki hefur tekist að birta fyrirkall. Konan hafði milligöngu um að koma kókaíninu til Geirs Hlöðvers og sakborningsins úr fyrsta ákærulið.

Þeir greiddu fyrir þau að hluta og óku með þau til fjórða sakbornings í málinu. Fíkniefnin skildu þeir eftir hjá fjórða sakborningnum en tóku með sér áfram rúm ellefu grömm. Fjórði maðurinn kom fyrir dóminn í morgun og neitaði alfarið sök, og það þrátt fyrir að lögreglan fann fíkniefnin í fórum hans.

Geir Hlöðver og sakborningurinn úr fyrsta ákærulið héldu svo leið sinni áfram og voru handteknir við heimili Geirs. Þegar dómari spurði þá tvo út í þennan ákærulið neitaði Geir Hlöðver sök. Hann sagðist hafa verið farþegi í umræddum bíl en ekki vitað um fíkniefni. Hinn maðurinn játaði hins vegar sök samkvæmt ákæru.

Þessi tvö mál, sem teljast sæmilega stór fíkniefnalagabrot, komu því til kasta lögreglunnar áður en gámurinn kom til landsins. Þar sem þau eru í sömu ákæru og stóra fíkniefnamálið má ætla að þau hafi komið upp í sömu rannsókn. Hvers vegna maður sem hefur tvívegis hefur verið handtekinn grunaður um nokkuð stór fíkniefnalagabrot heldur ótrauður áfram með það þriðja og langstærsta er óráðin gáta.

Samverkamaður greindi frá skipulagningunni

Auðvitað er ekki hægt að útiloka þann möguleika að Geir Hlöðver sé einfaldlega sýkn saka í stærsta þætti ákærunnar. Við þingfestinguna í morgun neitaði hann alla vega staðfastlega sök. Lykilvitni lögreglunnar er því samverkamaður hans, hinn höfuðpaurinn í málinu, Sævar Sverrisson.

Lögregla handtók Sævar sama dag og gámurinn kom til landsins, þ.e. 10. október. Gámnum var skipað í land í Straumsvík og var innihald hans ætlað fyrirtækið sem Sævar starfaði hjá. Sævar játaði strax hjá lögreglu aðild sína að innflutningnum. Hann stóð hins vegar fastur á því að hann hafi aðeins flutt til landsins steralyf. Við þetta stóð Sævar við þingfestingu málsins og sagðist ekki hafa haft hugmynd um að vímuefni væru í gámnum.

Samkvæmt ákæru eru Sævar og Geir Hlöðver báðir ákærðir fyrir skipulagningu innflutningsins, en sá síðarnefndi einnig fyrir að hafa lagt á ráðin um hann. Geir Hlöðver neitaði eins og áður segir alfarið sök og það stangast algjörlega á við játningu Sævars. Ekki síst þegar litið er yfir gæsluvarðhaldsúrskurði í málinu.

Í einum þessara úrskurða er haft eftir Sævari að hans hlutverk var að fara út til Amsterdam og hitta þar einstakling sem afhenti honum kassa með steralyfjum. Hann hafi svo sjálfur ætlað að taka á móti kössunum hér á landi og geyma þá þar til þeir yrðu sóttir. Þá sagði Sævar að Geir Hlöðver hefði fengið hann til verksins.

Einna athyglisverðast við aðalmeðferðina verður að sjá hvort Sævar haldi sig við framburð sinn hjá lögreglu um skipulagningu og þar með aðkomu Geirs Hlöðvers að málinu eða hann breytist Geir Hlöðveri í hag. Upplýst var um það fyrir dómi í morgun að langflest þau vitni sem koma fyrir dóminn í aðalmeðferðinni eru lögreglumenn. Er þeim mun sennilegra að stuðst verði við framburð Sævars og svo rannsóknargögn, en eðli málsins samkvæmt hefur ekki verið upplýst um hver þau eru.

Fékk pláss í gámnum fyrir steralyf

Þá kann að skipta máli framburður karlmanns á 26. aldursári sem ákærður er aðallega fyrir tolla-, lyfja- og lyfsölulagabrot en við húsleit hjá honum fannst talsvert magn steralyfja, en einnig tíu grömm af kókaíni. Samkvæmt ákæru var honum boðið að flytja með sama vörugámi og kom til landsins 10. október steralyf sem hann átti í Amsterdam hjá ótilgreindum pólskum manni. Geir Hlöðver bauð honum pláss í gámnum sem maðurinn þáði og flaug sjálfur til Hollands og bjó um lyfin þannig að þau færu í gáminn.

Hvernig svo sem fer við aðalmeðferð málsins er alla vega ljóst að höfuðpaurarnir tveir, Geir Hlöðver og Sævar, verða dæmdir til einhverrar refsingar, enda hafa þeir báðir játað á sig brot gegn lögum. Hvort þeir verði dæmdir fyrir að flytja inn þau tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur, tvö hundruð grömm af kókaíni og tæp 12 grömm af MDMA-dufti sem voru í vörugámnum verður ósagt látið.

Þó má geta þess að þegar litið er yfir sambærileg mál, þ.e. þar sem einstaklingur hefur játað á sig innflutning stera þegar í raun reyndist um fíkniefni vera að ræða er það sjaldnast tekið gott og gilt. Dómarar hafa þá litið til þess að viðkomandi hafi látið sér í léttu rúmi liggja hvað þeir væru að flytja inn og ekki athugað það sérstaklega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert