Nafnlaus ábending upphafið

Frá aðalmeðferðinni í dag.
Frá aðalmeðferðinni í dag. Morgunblaðið/Andri Karl

Nafnlaus ábending til lögreglu vorið 2011 varð til þess að tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni fundust í vörugámi í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október sl. Meðan á rannsókninni stóð komu upp tvö stór fíkniefnamál til viðbótar. Þetta kom fram í máli lögreglumanns sem kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í aðalmeðferð í Straumsvíkurmálinu svonefnda.

Upplýsingarnar sem bárust til lögreglu voru á þá leið, að fyrirhugað væri að flytja inn um tíu kíló af fíkniefnum, og málið tengdist Geir Hlöðveri Ericssyni. Ekkert var vitað um hvernig eða hvenær það átti að gerast. Lögregla hóf rannsókn á málinu, hleraði síma Geirs og húsnæði, frá vori 2011 til hausts þegar stóra málið kom upp.

„Við töldum okkur alltaf heyra meira og meira sem staðfesti grun okkar um þetta. En á meðan við erum að bíða eftir þessum stóra pakka koma upp tvö mál, í júní og september. Í þeim var töluvert af fíkniefnum í gangi, og við töldum okkur nauðbeygða til að fara í þau. Við reyndum þó að gera það þannig, að sakborninga myndi ekki gruna að við vorum að bíða eftir einhverju meira,“ sagði lögreglumaðurinn.

Rannsóknin beindist eingöngu að Geir Hlöðveri á þessum tíma en þegar farið var í húsleit hjá honum í júní fannst sími sem ekki var hleraður. Voru tekin niður númer af honum og hann skilinn eftir á heimilinu. Reyndist sá sími aðeins notaður til samskipta við Sævar Sverrisson. Þar kom hann fyrst inn í málið og fór það þá að vinda upp á sig.

Eftir að rannsókn hófst á Sævari kom í ljós að hann tók á móti gámum frá Hollandi og þegar hann fór út til Hollands og gámur átti að koma til landsins stuttu síðar var tekin sú ákvörðun að leita í gámnum. Þá fundust fíkniefnin.

Geir Hlöðver mætir fyrir dómara í morgun.
Geir Hlöðver mætir fyrir dómara í morgun. Morgunblaðið/Andri Karl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert