Sævar Sverrisson, einn sakborninga í Straumsvíkurmálinu svonefnda, játaði fyrir dómi í morgun að umrædd sending hefði ekki verið sú fyrsta sem hann sá um. Sævar hefur játað að hluta, þ.e. að hafa flutt inn stera en ekki vitað af fíkniefnum.
Sævar er ákærður ásamt Geir Hlöðveri Ericssyni fyrir að flytja inn til landsins tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni. Efnin fluttu mennirnir til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október. Lögregla lagði hald á efnin samdægurs.
Fyrir dómi í morgun sagði Sævar að hann sæi um innflutning frá Hollandi, meðal annars á efnavörum, brauðraspi og ýmsum hlutum fyrir matvælaiðnað. Hann tæki á móti einum gámi á mánuði. Sævar sagðist hafa komist í kynni við Geir Hlöðver og keypt af honum neysluskammta af kókaíni. Hann hefði samþykkt að flytja inn fyrir hann stera með gámi og var hann búinn að fá 1,3 milljónir króna fyrir það þegar hann fór í næstu ferð, sem ákært er fyrir í málinu.
Um var að ræða fjölskylduferð til Hollands en Sævar sagðist hafa fengið miða með heimilisfangi hjá manni sem hann ætti að hitta eitt kvöldið. Þar hefði hann fengið pakka sem hann átti að koma fyrir í gáminum. Morguninn eftir kom svo umræddur maður upp á hótel til Sævars með tvo pakka til viðbótar.
Sævar hafði samband við félaga sinn sem hann flytur inn frá, og kom kössunum til hans. Sá kom svo pökkunum fyrir í gáminum. Hann sagði að það hefði komið fyrir áður að fulltrúar fyrirtækisins bættu pökkum við í gáminum fyrir hann, m.a. hlaupahjóli. Í það skipti sem hann flutti inn stera áður fyrir Geir Hlöðver var það í pakkningu utan um örbylgjuofn.
Aðspurður sagðist Sævar ekki hafa athugað hvað væri í pökkunum, og ekki trúað öðru en að um væri að ræða steratöflur.
Aðalmeðferðin heldur áfram.