Straumsvíkurmáli framhaldið

Fíkniefnn sem fundust í gámi í Straumsvíkurhöfn.
Fíkniefnn sem fundust í gámi í Straumsvíkurhöfn. mbl.is/Júlíus

Aðalmeðferð í Straumsvíkurmálinu svonefnda hélt áfram fyrir Héraðsdómur Reykjavíkur á tíunda tímanum í morgun. Henni var síðast frestað í lok mars eftir að verjandi annars aðalmannsins krafðist þess að vitni búsett í Hollandi kæmi fyrir dóminn. Aðalmeðferðin hófst hins vegar í lok febrúar.

Stærsti ákæruliðurinn í málinu er á hendur tveimur karlmönnum, Geir Hlöðveri Ericssyni og Sævari Sverrissyni, sem gefið er að sök að hafa flutt inn til landsins tæp tíu kíló af amfetamíni, 8.100 e-töflur og rúm tvö hundruð grömm af kókaíni.

Efnin fluttu mennirnir til Íslands frá Rotterdam í Hollandi í vörugámi með skipi sem lagði að bryggju í Straumsvík í Hafnarfirði hinn 10. október. Lögregla lagði hald á efnin samdægurs. Um er að ræða stærsta fíkniefnamál sem kom upp á síðasta ári.

Þar sem dómarar á báðum dómstigum höfnuðu beiðni verjandans um að vitnið kæmi til landsins og fyrir dóminn verður tekin af honum skýrsla í gegnum síma. Er ráðgert að það verði gert í dag.

Í dag er jafnframt fyrirhugað að spila fyrir sakborninga hljóðupptökur sem teknar voru upp á heimili Geirs. Ennfremur má reikna með að málflutningur hefjist en óvíst er hvort honum ljúki fyrr en á miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert