Stúdentaráð ítrekar mikilvægi uppbyggingar

Gamli garður við Háskóla Íslands.
Gamli garður við Háskóla Íslands. Ljósmynd/mbl

Stúdentaráð Háskóla Íslands ítrekar mikilvægi áframhaldandi uppbyggingar stúdentaíbúða. En Stúdentaráð telur stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði sérstaklega slæma í dag.

Í október var tilkynnt um umfangsmestu framkvæmdir í sögu Félagsstofnun stúdenta þar sem fyrirhugað er að reisa yfir 400 stúdentaíbúðir. Hluti þeirra mun rísa við Gamla garð á háskólasvæði Háskóla Íslands en áætlað er að um þar muni rísa bygging sem geymir um 78 herbergi með sérbaðherbergi en sameinlegu eldhúsi og stofu. 

Minjastofnun Íslands telur þessa byggingu við Gamla garð raska listrænni skipulagsheild á svæðinu með óafturkræfum hætti vegna þess að framhlið hússins muni hverfa að mestu á bak við nýbygginguna. 

Frétt mbl: Veruleg og neikvæð umhverfisáhrif 

Teikningin sýnir vinningstillögu nýju stúdentagarðanna við Gamla garð.
Teikningin sýnir vinningstillögu nýju stúdentagarðanna við Gamla garð. Teikning/Ydda arkitektar

Biðlistar munu lengjast

Á hverju ári bíða um þúsund stúdentar eftir úthlutun á íbúð og útlit er fyrir að biðlistar muni lengjast á næsta ári. Ástæður þess eru meðal annars útskrift tveggja árganga úr framhaldsskólum og hátt leiguverð á almennum markaði.

Stúdentaráð áréttar að staða ungs fólks á húsnæðismarkaði sé sérstaklega slæm og því mikilvægt að uppbygging stúdentaíbúða haldi áfram. Þá kveði nýlegur sáttmáli um húsnæðismál á um það að stjórnvöld hyggist flýta fyrir uppbyggingu stúdentaíbúða til þess að bregðast við þessu ástandi. 

Mikilvægt að byggja á háskólasvæðinu

Stúdentaráð telur mikilvægt að nýju íbúðirnar rísi á háskólasvæðinu en stúdentar vilja helst búa nálægt Háskólanum. Nálægð við skólann geri það að verkum að auðveldara er að ferðast á milli heimilis og skóla á ódýran og umhverfisvænan hátt.

Þar að auki muni bygging á háskólasvæðinu hjálpa til við að byggja upp lifandi háskólaumhverfi, sem er sameiginlegt markmið stúdenta og Háskólans. Að lokum hvetur Stúdentaráð forsvarsmenn Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Félagsstofnunar stúdenta til þess að halda fyrirhugaðri uppbyggingu á háskólasvæðinu áfram.

Fréttin hefur verið uppfærð og leiðrétt. Í fyrstu kom fram að stór hluti íbúða (um 220-230 íbúðir) rísi við Gamla garð en það er rangt og mun sú bygging rísa við Sæmundargötu 23. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert