Sunna kemur ekki heim í dag

Sunna ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Malaga.
Sunna ásamt dóttur sinni á sjúkrahúsinu í Malaga. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Unnar

Ljóst er orðið að Sunna Elvira Þorkelsdóttir, sem lamaðist eftir fall á Malaga, mun ekki komast heim til Íslands í dag. Þetta segir Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður fjölskyldu Sunnu, í samtali við mbl.is. „Ég var að tala við utanríkisráðuneytið, það er að stuðla að því að Landspítalinn komist í samband við sjúkrahúsið úti og embætti ríkislögreglustjóra er að ræða við lögregluyfirvöld úti um að hún fái afhentan passann,“ segir Jón Kristinn.

Utanríkisráðuneytið sé að vinna í málinu af fullum krafti, en vegabréf Sunnu sé enn í vörslu lögreglunnar á Malaga og því ekki komin heimild til að flytja hana.

Jón Kristinn segir ýmsa sem fróðir eru um fötlunarfræði hafa sett sig í samband við sig og spurt hvort fólk geri sér ekki grein fyrir því að hver einasta klukkustund skipti máli. „Sunna sjálf hefur enga getu til að túlka hvað líkaminn er að gera, þannig að menn eru orðnir verulega áhyggjufullir,“ segir hann.

Lítil þekking virðist vera á sjúkrahúsinu sem hún dvelur á og þannig hafi Sunna til að mynda verið sett í stól til að hreyfa sig, þrátt fyrir að vera með brotinn hrygg. Jón Kristinn segir að við það hafi liðið yfir hana, enda hafi blóðþrýstingurinn fallið hratt.

Ástandið á Sunnu og móður hennar, sem flaug út til að vera með henni, sé líka orðið verulega bágborið. Jón Kristinn segist því kominn á það að reyna að komast út og hafa einhver áhrif. „Þó að ég sé ekki maðurinn sem flýgur með hana heim,“ bætir hann við og kveður verið að skoða flug fyrir sig.

„Það skilur þetta enginn,“ segir Jón Kristinn. „Það verður þó að koma fram að íslensk yfirvöld eru að standa sig mjög vel.“

Maður Sunnu var hnepptur í varðhald á Spáni í tengslum við rannsókn á falli hennar, en honum var síðan sleppt og telst málið upplýst. Hann kom til Íslands fyrir helgi og var þá hand­tek­inn í tengslum við fíkni­efna­mál.  

Flugvélin sem flytja mun Sunnu til Íslands getur gengið í verkið á innan við sólarhring og búið er að safna þeim fimm milljónum sem flutningurinn kostar. „Íslenska þjóðin sá til þess,“ segir Jón Kristinn og kveður allt vera klárt utan vegabréfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert