Aron Þórður Albertsson
„Það er búið að margbrjóta á mannréttindum mínum.“ Þetta segir Sunna Elvira Þorkelsdóttir, sem lamaðist eftir fall á Spáni fyrir um mánuði. Sunna hefur verið í farbanni eftir að eiginmaður hennar var handtekinn við komuna til Íslands grunaður um aðild að fíkniefnamáli.
Foreldrar Sunnu hafa þurft að sinna henni samkvæmt fyrirmælum íslenskra lækna þar sem nær ómögulegt reynist að fá upplýsingar frá læknum spítalans um hvernig meðhöndla eigi meiðslin, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Illa hefur gengið að koma Sunnu til Íslands eða á annan spítala þar sem hægt væri að gera að meiðslum hennar, en Sunna er þríhryggbrotin, með þrjú brotin rifbein auk annarra áverka. „Ég er alveg að gefast upp hérna. Utanríkisráðuneytið hefur ekkert gert og svo virðist sem lögreglan haldi mér hér í gíslingu til að fá upplýsingar frá eiginmanni mínum um eiturlyfjasmygl sem ég veit ekkert um,“ segir Sunna. Fram kom í gær að ráðuneytið hefur sent fulltrúa sinn til Spánar til að gæta hagsmuna Sunnu.