„Umsóknin lá bara ofan í skúffu“

Sunna Elvira Þorkelsdóttir ásamt móður sinni, Unni Birgisdóttur, á spítalanum …
Sunna Elvira Þorkelsdóttir ásamt móður sinni, Unni Birgisdóttur, á spítalanum í Malaga en þar hefur Sunna dvalið sökum farbanns undanfarinn mánuð. Ljósmynd/Aðsend

„Að komast að því að umsóknin hafi bara legið ofan í skúffu undanfarna tíu daga var sannkallað reiðarslag,“ segir Sunna Elvira Þorkelsdóttir, sem legið hefur lömuð á háskólasjúkrahúsi í Malaga undanfarinn mánuð.

Sunna hefur verið í farbanni eftir að eiginmaður hennar var handtekinn skömmu eftir komuna til Íslands, en hann er grunaður um aðild að fíkniefnamáli.

Sunna hefur undanfarna tíu daga beðið eftir flutningi á bæklunarspítala í grennd við Sevilla þar sem hún getur fengið viðeigandi læknisaðstoð. Sendiherra Íslands gagnvart Spáni og fulltrúi utanríkisráðuneytisins hafa dvalið hjá Sunnu síðustu daga með það fyrir augum að liðka fyrir flutningnum til Sevilla.

Sunna segir enga hreyfingu hafa orðið á málinu sökum þess að umsóknin var aldrei send frá spítalanum í Malaga.

„Ég hef verið spurð á hverjum einasta degi hvað sé að frétta af umsókninni og alltaf segir starfsfólk spítalans mér bara að vera þolinmóðri því þetta taki allt tíma. Sendiherrann og konsúllinn sem dvalið hafa hjá mér síðustu daga fóru að athuga málið betur og fengu loks fund með yfirmönnum spítalans. Útkoman úr þeim fundi var sú að umsóknin lá bara ofan í skúffu, auk þess sem í hana vantaði ýmsar nauðsynlegar upplýsingar,“ segir Sunna sem vonar að hreyfing komist á málið sem fyrst.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hafa nauðsynleg eyðublöð nú verið fyllt út og vonir standa því til að hægt verði að flytja Sunnu til Sevilla sem fyrst.

Sjúkraþjálfaranum meinaður aðgangur að spítalanum

Undanfarna þrjá daga hefur Sunna verið í meðhöndlun hjá sjúkraþjálfara á vegum utanríkisráðuneytisins, en endurhæfing á spítalanum í Malaga hefur verið af skornum skammti. Nú hefur Sunnu verið tjáð af starfsfólki spítalans að sjúkraþjálfaranum verði meinaður að aðgangur að spítalanum.

„Fljótlega eftir að ég fékk að heyra fréttirnar um umsóknina kom starfsfólk spítalans til mín og sagði mér að ég myndi ekki fá frekari meðhöndlun frá sjúkraþjáfara ráðuneytisins. Ástæðan var sögð sú að einungis starfsfólk spítalans mætti koma að umönnun minni. Þannig [að] í stað þess að fá góða sjúkraþjálfun einu sinni á dag, klukkustund í senn, mun ég fá sjúkraþjálfara til mín einu sinni í viku, tíu mínútur í senn,“ segir Sunna.

Hún segir að þrátt fyrir einungis örfáa tíma með sjúkraþjálfaranum hafi hún fengið mjög góðar upplýsingar um ástand sitt. 

„Hann talar bæði spænsku og ensku, gat lesið læknaskýrslurnar og vissi hvernig átti að meðhöndla ástand mitt. Þá kom í ljós að taugarnar í fótunum eru heilar, sem eru virkilega góðar fréttir og gáfu mér von. Við vorum farin að vinna í æfingum sem áttu að gera mér kleift að setjast í hjólastól með tímanum og ég var orðin mjög vongóð með framhaldið. Svo segja þeir mér að þetta verði bara tekið af mér. Ég gat ekki annað en grátið,“ segir Sunna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert