Vilja leysa málið eins fljótt og hægt er

Sunna Elvira ásamt dóttur sinni.
Sunna Elvira ásamt dóttur sinni.

Unnið er að því að þoka málum Sunnu Elviru Þorkelsdóttur áfram. Eins og greint var frá fyrr í dag var umsókn hennar um að komast á betri spítala í Sevilla geymd ofan í skúffu í tíu daga en sendiherra Íslands gagnvart Spáni segir að í hana hafi vantað gögn.

„Við vinnum í því að þoka málum áfram, aðallega að reyna að sjá til þess að hún fái viðeigandi meðhöndlun á spítalanum í Malaga en helst að komist til Sevilla þar sem betri þjónusta er í boði,“ segir Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Sunna hef­ur verið í far­banni eft­ir að eig­inmaður henn­ar var hand­tek­inn skömmu eft­ir kom­una til Íslands, en hann er grunaður um aðild að fíkni­efna­máli. Hún hefur legið lömuð á spítala í Malaga síðan 17. janúar en vonir standa til að hún komist þaðan fljótlega.

Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 er Sunna grunuð um aðild að fíkniefnasmygli milli Íslands og Spánar. Sjálf neitar hún allri vitneskju um málið.

Gengur vonandi hratt fyrir sig

Kristján segir að í ljós hafi komið að gögn vantaði í umsókninni um flutning á spítala í Sevilla. Nú eigi öll þau gögn að hafa skilað sér og sendiherrann bíður eftir staðfestingu á því. „Ég veit ekki betur en að allt eigi að vera í lagi. Vonandi gengur það hratt fyrir sig og hún kemst þar að. Við reynum að fylgja því fast eftir.“

Fyrr í dag var einnig greint frá því að sjúkraþjálfara á vegum utanríkisráðuneytisins sem var með Sunnu í endurhæfingu hefði verið meinaður aðgangur að spítalanum. Kristján segir að búið sé að semja um að hún fái meiri þjónustu á spítalanum en áður.

Spurður um farbann Sunnu segir Kristján að búið sé að mynda tengsl og reynt sé að liðka fyrir þannig að hún komist til Íslands.

Það eru allir af vilja gerðir til að leysa úr þessu máli eins fljótt og hægt er. Vonandi verður þróun á málinu núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert