Bestu fréttirnar í langan tíma

Sunna Elvira Þorkelsdóttir ásamt móður sinni Unni Birgisdóttur, á spítalanum …
Sunna Elvira Þorkelsdóttir ásamt móður sinni Unni Birgisdóttur, á spítalanum í Malaga en þar hefur Sunna dvalið sökum farbanns undanfarinn mánuð.

Fjölskylda Sunnu Elviru Þorkelsdóttur á ekki von á neinum viðbrögðum frá Spáni um helgina en greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að einungis ætti eftir að ganga frá formsatriðum varðandi það að íslenska lögreglan taki yfir mál Sunnu og hún verði laus úr farbanni.

Sunna hefur legið lömuð á háskólasjúkrahúsi í Malaga undanfarin mánuð en hún er þríhryggbrotin, með þrjú brotin rifbein auk annarra áverka. Hún hefur verið í farbanni síðan eiginmaður hennar, Sigurður Kristinsson, var handtekinn en hann er grunaður um aðild að fíkniefnamáli. 

Jón Kristinn Snæhólm, talsmaður fjölskyldu Sunnu Elviru, segir að þau hafi ekki fengið það formlega staðfest að íslenska lögreglan muni taka málið yfir og að Sunna muni losna úr farbanninu. Hann býst ekki við því að neitt gerist um helgina og segir mikið skrifræði á Spáni útskýra seinagang.

„Þetta eru bestu fréttir sem við höfum fengið síðan slysið varð. Ráðuneyti og lögregluyfirvöld eru á fullu í þessu,“ segir Jón Kristinn við mbl.is þegar hann er spurður út í fréttina þess efnis að Sunna komi heim á allra næstu dögum.

Hann telur að beðið sé viðbragða frá Spáni og þegar grænt ljós komi þaðan muni Sunna fara heim. „Það mun koma „Go“ frá ráðuneytinu og þá verður vélin klár,“ segir Jón Kristinn en sjúkraflugvél sem á að flytja Sunnu til landsins bíður í Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert