Sigurður Kristinsson, eiginmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur sem hefur legið lömuð á sjúkrahúsi í Malaga undanfarin mánuð, hlaut uppreist æru fyrir fimm árum.
Fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum RÚV.
Sigurður var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 2004 fyrir íkveikju og að hafa með henni ógnað lífi þriggja einstaklinga. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því hann kom frá Spáni en Sigurður er grunaður um aðild að fíkniefnamáli. Sigurður var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna 7. febrúar.
Sigurður sótti um uppreist æru árið 2013. Þar kemur fram að hann hafi lokið afplánun í júní 2006 og að frá árinu 2007 hafi hann verið í forsvari fyrir þrjú byggingaverktakafyrirtæki og rekstur þeirra hafi gengið vel.
Annar meðmælenda Sigurðar segir að hann leyfi sér „af einlægni að fullyrða að í Sigurði er að finna það sem maður getur kallað „fyrirmyndar samborgari““.
Áður hefur verið greint frá því að grunur leikur á stórfelldum undanskotum eigna og þjófnaði úr félaginu SS hús ehf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta 10. janúar síðastliðinn. Sigurður, sem átti félagið með bróður sínum og föður, hefur stýrt því undanfarið.
Talið er að undanskot eigna og óútskýrðar millifærslur af reikningum félagsins hlaupa á hundruðum milljóna. Þá er félagið einnig til rannsóknar hjá skattayfirvöldum meðal annars vegna mikilla vanskila á vörslusköttum.