Réttarbeiðni íslenskra stjórnvalda til spænskra lögregluyfirvalda um að íslenskra lögreglan taki formlega yfir rannsókn á máli sem Sunna Elvira Þorkelsdóttir tengist á Spáni hefur verið móttekin af spænskum yfirvöldum.
Lögmaður Sunnu ytra mun fara á fund spænskra yfirvalda á morgun og Páll Kristjánsson, lögmaður hennar hér heima, segir í samtali við mbl.is að hann vonist eftir því að einungis eigi eftir að ganga frá formsatriðum.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn staðfesti við fréttavef RÚV fyrr í dag að formleg réttarbeiðni hefði verið send til spænskra lögregluyfirvalda og að beðið væri svara um það hvort Spánverjar fallist á beiðnina eða ekki. Íslenska lögreglan vill fá Sunnu til landsins vegna rannsóknarhagsmuna í fíkniefnamáli, sem meðal annars tengist eiginmanni Sunnu, Sigurði Kristinssyni.
Frá því var greint í Morgunblaðinu á laugardag að íslensk lögregla myndi taka yfir rannsókn á málinu sem Sunna Elvira tengist og að einungis ætti eftir að ganga frá formsatriðum hvað það varðaði. Að því loknu yrði Sunna laus úr farbanni.
„Þó svo að þessi réttarbeiðni fari formlega með þessum hætti, á bréfi eins og sagt er, erum við auðvitað búin að tala við yfirvöld þar og þessi réttarbeiðni kemur þeim ekkert á óvart,“ segir Grímur í samtali við mbl.is.
Hann segir að vegna málsins hafi bæði átt sér stað samskipti á milli spænskra og íslenskra lögregluyfirvalda og einnig á milli yfirvalda þar fyrir ofan, svo sem ákæruvalds og dómstóla.
„Réttarbeiðnin gengur út á það að við tökum yfir rannsókn þessa máls, vegna þess að það er ekki í samræmi við mannréttindasáttmála að sömu atvik séu rannsökuð á tveimur stöðum í einu,“ segir Grímur og bætir við að það þurfi að gera samkomulag um það að rannsókn fari einungis fram á einum stað í tilvikum sem þessum.