Íslenska lögreglan hefur ekki fengið svör frá spænskum lögregluyfirvöldum um réttarbeiðni íslenskra stjórnvalda um að lögreglan hér á landi taki yfir rannsókn á máli sem Sunna Elvira Þorkelsdóttir tengist á Spáni.
Spænska lögreglan tók á móti réttarbeiðninni fyrir nokkrum dögum.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir ekkert nýtt að frétta af málinu eins og staðan er í dag. Hann segir ómögulegt að segja til um hvenær spænska lögreglan taki afstöðu til réttarbeiðninnar.
Réttarbeiðnin gengur út á það að íslenska lögreglan taki yfir rannsókn málsins vegna þess að það er ekki í samræmi við mannréttindasáttmála að sömu atvik séu rannsökuð á tveimur stöðum í einu. Hins vegar þurfi að gera samkomulag um það að rannsókn fari einungis fram á einum stað í tilvikum sem þessum.
Sunna liggur á ríkisspítala á Malaga á Spáni. Hún er í ótímabundnu farbanni þar sem spænska lögreglan er með vegabréfið hennar.