Sunna Elvira Þorkelsdóttir, sem hefur legið lömuð á sjúkrahúsi í Malaga á Spáni undanfarinn mánuð í kjölfar falls, er komin á bæklunarspítala í Sevilla. Hún var flutt þangað frá Malaga í morgun og gekk flutningurinn vel. Þetta staðfestir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við mbl.is.
Ræðismaður Íslands í borginni hefur aðstoðað í málinu og mun áfram aðstoða eins og kostur er á. Þá mun borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins einnig halda áfram að veita aðstoð sem Sunna þarf á að halda og er í valdi ráðuneytisins að veita.
Íslenska lögreglan bíður enn svara frá spænskum lögregluyfirvöldum um réttarbeiðni íslenskra stjórnvalda um að lögreglan hér á landi taki yfir rannsókn á fíkniefnamáli sem Sunna tengist á Spáni. Vill lögreglan fá hana til landsins vegna rannsóknarhagsmuna í málinu, sem meðal annars tengist eiginmanni Sunnu, Sigurði Kristinssyni.