Líkti Sigurði Inga við kamelljón

Logi Einarsson.
Logi Einarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kallaði Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra kamelljón á þingfundi í dag. Logi sagði Sigurð skila auðu varðandi samgönguáætlun.

Logi rifjaði upp að Sigurður Ingi hefði í umræðum um fjármálaætlun í fyrra sagt að þáverandi ríkisstjórn ynni í engu samræmi við gefin kosningaloforð og að verk hennar bæru vott um metnaðarleysi. 

Nú væri Sigurður Ingi hinum megin borðsins og sagði Logi að hann væri þá eins og kamelljón, sem skiptir litum til að fela sig og falla inn í fjöldann.

Logi spurði ráðherra hvort hann ætlaði að leggja fram samgönguáætlun í líkingu við þá sem samþykkt var haustið 2016. „Í ljósi þess að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru núna í ríkisstjórn og Vinstri græn studdu hana?“ spurði Logi.

Hann spurði einnig hvort ný samgönguáætlun yrði lögð fram fyrir sveitarstjórnarkosningar í lok maí.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert

Áætlun verður lögð fram í haust

Sigurður Ingi sagði að hann væri ekki kamelljón, hann væri ekki að fela sig eins og kamelljón gerðu og auk þess skipti ráðherrann sjaldan skapi. 

„Þó ég hefði gjarnan viljað leggja fram samgönguáætlun í vor mun ég ekki ná því. Áætlun til fimm og fimmtán ára verður lögð fram í haust,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann bætti því við að ekki væri boðlegt fyrir þingið að fá hana í hendurnar til afgreiðslu á örfáum dögum í júní. „Þetta er plagg sem allir hafa skoðun á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert