Að bryggju 11 mínútum eftir neyðarkall

Slökkviliðsmenn að störfum við Reykjavíkurhöfn.
Slökkviliðsmenn að störfum við Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Eggert

Norski dráttarbáturinn sem verið er að dæla upp úr í Faxagarði heitir FFS Amaranth og hefur það verkefni að draga togara frá Grænlandi.

Báturinn var rétt ókominn til hafnar þegar hann óskaði eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar klukkan 13.35 í dag. Skipstjórinn hafði áhyggjur af því að það myndi drepast á vélunum áður en hann kæmist til hafnar en það gerðist ekki.

Ellefu mínútum síðar, eða klukkan 13.46, hafði báturinn lagst við höfn á eigin vélarafli.

Fimm manns voru í áhöfninni, allt Norðmenn.

Slökkviliðsmenn dæla upp úr bátnum.
Slökkviliðsmenn dæla upp úr bátnum. mbl.is/Eggert

Björgunarsveitin Ársæll hefur aðstoðað slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi. Slökkviliðið er enn að dæla upp úr bátnum og svo virðist sem ekkert neyðarástand ríki, að sögn Landhelgisgæslunnar. 

Sjór komst í vélarrúmið og líklegt er að lekinn sem kom upp tengist sjókælingu bátsins.

Málið er núna í höndum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Slökkviliðið dælir upp úr bátnum í Faxagarði.
Slökkviliðið dælir upp úr bátnum í Faxagarði. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert