„Málið er enn í sömu stöðu og hefur verið,“ segir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Íslenska lögreglan hefur enn ekki fengið lokasvar frá lögregluyfirvöldum á Spáni um réttarbeiðni íslenskra stjórnvalda.
Um miðjan febrúar sagði Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn lögregluna hafa óskað eftir því að taka yfir rannsókn á máli sem Sunna Elvira Þorkelsdóttir tengist á Spáni. Til þess þarf umboð frá yfirvöldum á Spáni og liggur beiðnin enn hjá þeim.
Sunna Elvira liggur á bæklunarsjúkrahúsi í Sevilla. Hún hefur verið í ótímabundnu farbanni á Spáni frá því hún slasaðist í janúar. Eiginmaður hennar, Sigurður Kristinsson, er grunaður um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli og hefur setið í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna rannsóknar málsins.