Lýsi er ógeðslegt – En það virkar

Hver sem vex úr grasi í landi þar sem nánast …
Hver sem vex úr grasi í landi þar sem nánast engin tré vaxa vegna vinds er sterkari en tré. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Frá víkingum til súrs hákarls – Tíu ástæður fyrir því að Íslendingar eru svona sterkir“ er fyrirsögn greinar þýska vefmiðilsins Kölner Stadt-Anzieger þar sem Þjóðverjarnir reyna að gera sér í hugarlund ástæður þess að Íslendingar séu svo sterkir.

Með greininni reyna þeir eflaust að svara vangaveltum fjölmargra um það hvernig standi á því að íslenska karlalandsliðinu í fótbolta hafi tekist að komast á HM og þar að auki gera jafntefli við Argentínu í sínum fyrsta leik.

Ástæðurnar tíu eru eftirfarandi samkvæmt Þjóðverjunum:

  1. Þegar forfeður Íslendinga, víkingarnir, sigldu frá Noregi yfir ólgusjó til Íslands fyrir 1.000 árum var ekki í boði að gefast upp eftir fyrri hálfleik.
  2. Þegar þú þarft reglulega að verjast ísbjörnum sem koma til landsins með ísjökum frá Grænlandi er lítið mál að takast á við Portúgala.
  3. Að taka lýsi á hverjum morgni er ógeðslegt – en það virkar.
  4. McDonald´s og Burger King mistókst að halda uppi skyndibitakeðjum á eyjunni – skyndibiti á ekki séns gegn langlífa þjóðarréttinum, súrum hákarli.
  5. Allir Íslendingar eru skyldir og þeir hafa hæstu fæðingartíðni í Evrópu (2.0 börn á konu) – blóð er þykkara en vatn.
  6. Hver sá sem vex úr grasi í landi þar sem nánast engin tré vaxa vegna hvassviðris er sterkari en tré.
  7. Þeir sem geta grillað pylsurnar sínar yfir glóandi hrauni hljóta að vera alvöru menn.
  8. Framburður nafna sem restin af heiminum mistekst að bera fram („Eyjafjallajökull“) æfir öndun og samhæfingu.
  9. Og við tölum nú ekki um ósýnilega álfaherinn.
  10. Á veturna er ekki bjart nema í þrjár klukkustundir á dag – í myrkrinu þarftu að takast á við andstæðinginn eins og Jedi-riddari.
Það er ekkert mál að takast á við Portúgala á …
Það er ekkert mál að takast á við Portúgala á borð við Ronaldo þegar þú ert vanur að glíma við ísbirni. Slíkt hið sama hlýtur að gilda um Argentínumenn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert