Pompeo aftur í Norður-Kóreu

„Ef ég kem hingað einu sinni enn þarf ég væntanlega …
„Ef ég kem hingað einu sinni enn þarf ég væntanlega að fara að greiða hér skatta,“ grínaðist Pompeo á blaðamannafundi. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði með Kim Yong Chol, embættismanni Norður-Kóreustjórnar, í dag.

Markmið fundarins var að sögn utanríkisráðherrans að hnýta lausa enda fyrirhugaðs kjarnorkusamkomulags Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Þetta er fyrsti fundur kínverskra og bandarískra embættismanna frá því Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump Bandaríkjaforseti funduðu í Singapúr í síðasta mánuði.

Á þeim fundi undirrituðu leiðtogarnir yfirlýsingu um að þeir hygðust vinna saman að „kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga“ án þess að farið væri í útfærsluatriði, svo sem hvar kjarnorkuprófanir ríkisins hafa farið fram eða hvenær og hvernig afvopnun yrði háttað. Trump lýsti því yfir stuttu eftir heimkomuna að ekki væri lengur kjarnorkuhætta frá Norður-Kóreu.

Fjölmiðlar vestra hafa þó greint frá því að leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, telji að Norður-Kóreumenn hafi lítinn áhuga á því. Þá hafa embættismenn innan bandarísku leyniþjónustunnar látið hafa eftir sér að það séu „óyggjandi sannanir fyrir því að þeir [N-Kóreumenn] séu að reyna að blekkja Bandaríkin“.

Þetta er í þriðja sinn á þremur mánuðum sem Pompeo heimsækir einræðisríkið einangraða og í fjórða sinn sem hann fundar með norður-kóreskum embættismönnum. Kim Yong Chol, háttsettur embættismaður Kommúnistaflokksins, og Ri Yong Ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, tóku á móti honum á flugvellinum.

Kona á hjóli í Norður-Kóreu. Myndin er tekin úr bíl …
Kona á hjóli í Norður-Kóreu. Myndin er tekin úr bíl í bílalest bandarísku erindrekanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert