Hálka víða á vegum landsins

Greiðfært er að mestu á aðalleiðum á Suðurlandi samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni en hálka eða hálkublettir á útvegum. Greiðfært er að sama skapi á flestum aðalleiðum suðvestanlands en hálka eða hálkublettir á útvegum.

Víða er hálka eða snjóþekja á vegum á Vesturlandi. Snjóþekja og él er á Holtavörðuheiði. Víða er einnig hálka á Vestfjörðum og snjóþekja á fjallvegum en orðið greiðfært víða á láglendi.

Greiðfært er í Húnavatnssýslum en hálkublettir eru víða í Skagafirði og hálka á Þverárfjalli. Hálka er á Öxnadalsheiði og víða austan Eyjafjarðar.

Hálka er eins á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og einhver éljagangur. Snjóþekja er á Dettifossvegi og víða hálkublettir á Norðausturvegi.

Hálka er á Öxi og snjóþekja er á Fjarðarheiði austanlands en hálkublettir eru á Vatnsskarði eystra og Breiðdalsheiði. Aðrar leiðir eru greiðfærar að mestu.

Krapi er á veginum milli Kirkjubæjarklausturs og Kvískerja og hálka á veginum frá Vík að Klaustri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert