Rannsókn brunans lokið og komið til héraðssaksóknara

Húsið á Kirkjuvegi gjöreyðilagðist í brunanum.
Húsið á Kirkjuvegi gjöreyðilagðist í brunanum. mbl.is/Eggert

Rannsókn brunans á Selfossi í lok október á síðasta ári, sem kostaði tvær manneskjur lífið, er lokið og málsgögn eru kominn inn á borð héraðssaksóknara. Landsréttur staðfesti á fimmtudag í síðustu viku gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manninum sem grunaður er um að hafa valdið eldsvoðanum.

„Málsgögn fóru frá okkur til héraðssaksóknara milli jóla og nýárs og þá átti eftir að koma mat á almannahættu [vegna brunans] en það er komið og hefur verið afgreitt beint til héraðssaksóknara sem er með málið til meðferðar,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Málsgögn komin til héraðssaksóknara

Héraðsdómur Suðurlands samþykkti 27. desember kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi þess efnis að gæsluvarðhald yrði framlengt yfir manninum sem grunaður er að hafa valdið eldsvoðanum. Landsréttur staðfesti þann úrskurð fimmtudaginn 3. janúar og verður maðurinn því í gæsluvarðhaldi til 24. janúar.

„Fallist er á það með sóknaraðila að sterkur grunur leiki á því að varnaraðili hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 16 ára fangelsi,“ segir í úrskurði Landsréttar sem vísar annars til úrskurðar héraðsdóms.

Slökkviliðsmenn að störfum eftir brunann.
Slökkviliðsmenn að störfum eftir brunann. mbl.is/Eggert

Sagðist vera morðingi

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Suðurlands kemur fram að maðurinn hafi verið fyrir utan húsið sem brann þegar lögreglu bar að garði og hafi hann þá að eigin frumkvæði viðurkennt að hafa kveikt í og að hann „væri bara morðingi.“

Við fyrri yfirheyrslu hjá lögreglu mundi hann eftir því að hafa kveikt eld í stofu á neðri hæð hússins en neitaði að tjá sig við síðari yfirheyrslu.

Þegar gæsluvarðhaldið yfir manninum rennur út 24. janúar verður 12 vikna hámarks gæsluvarðhaldi á grundvelli almanna- og rannsóknarhagsmuna náð. Maðurinn verður því frjáls ferða sinna nema gefin verði út ákæra fyrir þann tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert