Ekki ástæða til að ætla að brestir hafi orðið í eftirliti

Fjármálaráðherra segir af og frá að fjárfestingarleið Seðlabanka íslands hafi …
Fjármálaráðherra segir af og frá að fjárfestingarleið Seðlabanka íslands hafi verið leið sem sérstaklega hentaði fyrir peningaþvætti. mbl.is/Golli

Það er af og frá að opnuð hafi verið leið sem sérstaklega hentaði fyrir peningaþvætti með fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands. Skyldur til að kanna uppruna fjár stóðu óhaggaðar af fjárfestingarleiðinni. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við skriflegri fyrirspurn mbl.is. Samkvæmt heimildum ráðuneytisins hefur skattrannsóknarstjóri fengið upplýsingar um það hverjir tóku þátt í fjárfestingarleiðinni. Segist hann ekki hafa ástæðu til að ætla að eftirlitsaðilum hafi yfirsést nokkuð. 

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sagði í Silfrinu á RÚV síðastliðinn sunnudag að fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands hafi verið ein skýrasta opinbera peningaþvættisleið sem nokkurn tímann hafi verið framkvæmd. 

Í kjölfarið skrifaði Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, grein sem birtist á Kjarnanum og sagði hann umræðuna um peningaþvætti í tengslum við fjárfestingarleiðina vera á miklum villigötum. 

Bjarni segist ekki vita til þess að brestir hafi verið í eftirliti með uppruna fjárs sem fór í gegnum fjárfestingarleiðina. 

„Fyrir liggur að fjármálafyrirtækin, sem milliliðir, höfðu þá skyldu. Þau fyrirtæki lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Mér er ekki kunnugt um að misbrestur hafi verið á slíkum athugunum eða eftirliti með þeim,“ segir Bjarni Benediktsson í svari sínu. 

Segir þrekvirki hafa verið unnið

Fyrr í mánuðinum var Ísland sett á gráan lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í kjölfarið sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að stjórnvöld hafi látið úrbótavinnu í tengslum við fyrstu úttekt FATF sitja á hakanum frá árinu 2006 fram til ársins 2018. 

Þriðja úttekt FATF fór fram árið 2006 og samkvæmt stöðuskýrslu hafði Ísland einungis uppfyllt að hluta eða ekki uppfyllt 26 af 40 tilmælum. Bjarni segir að það hafi tekið íslensk stjórnvöld 10 ár að komast út úr eftirfylgni þriðju úttektar, en henni lauk formlega í árslok 2016. 

Í ársbyrjun 2017 hófst síðan fjórða úttekt FATF, en úttektarferlið stóð yfir í um 14 mánuði og var lokaskýrsla gerð opinber í byrjun apríl á síðasta ári. 

„Í stuttu máli voru helstu niðurstöður þær að aðgerðum og vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á Íslandi væri verulega ábótavant. Átti þetta bæði við um regluverkið í kringum málaflokkinn og skilvirkni. Í samræmi við verklag FATF var Íslandi því vísað í aukna eftirfylgni hjá International Co-operation Review Group (ICRG) en í því fólst að Ísland fengi ársfrest til að gera verulegar úrbætur á vörnum sínum í málaflokkunum,“ segir í svari ráðuneytisins. 

„Síðan þessi staða varð ljós hefur verið unnið þrekvirki í að bæta úr þeim ágöllum sem verið hafa á vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á landi. Aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til hafa m.a. verið setning laga og reglugerða, breyting á verklagi á ýmsum sviðum ásamt því að tryggja nægt fjármagn til viðeigandi stofnana, einkum til að fjölga stöðugildum, svo unnt sé að tryggja varnir gegn peningaþvætti og fjármögnum hryðjuverka í íslensku stjórnkerfi.“

Segir Ísland ekki eiga heima á listanum  

„Af því 51 atriði sem FATF gerir kröfu um að séu uppfyllt og tiltekin voru í skýrslunni frá því í apríl 2018 stóðu einungis sex eftir í lok september 2019 samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps FATF. Að mati íslenskra stjórnvalda eru úrbætur vegna allra þeirra atriða í skýru og tímasettu ferli eða þegar lokið,“ segir í svarinu.

Ráðherra segir að viðurkennt hafi verið að Ísland hafi gripið til aðgerða til að mæta kröfum FATF, en að ekki hafi gefist tími til að yfirfara þær allar áður en ákvörðunin um að setja Ísland á gráa listann var tekin. Nú sé unnið að því að bregðast við útistandandi tilmælum hjá viðeigandi aðilum innan stjórnkerfisins með það að markmiði að staða Íslands á listanum verði endurskoðuð hið fyrsta. 

Þá segist Bjarni vera þeirrar skoðunar að ekki hafi verið tilefni til að færa Ísland á gráan lista. 

„Óumdeilt er að unnið hefur verið afar umfangsmikið starf og ég tel að brugðist hafi verið við ábendingum FATF að því marki sem hægt er að hrinda þeim í framkvæmd á jafn skömmum tíma og hér hefur átt við. Ég er þeirrar skoðunar að ekki hafi, í ljósi skýrrar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda og þess að allar aðgerðir eru í góðum farvegi, verið tilefni til að færa Ísland á gráan lista.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert